FréttirSkrá á póstlista

05.09.2011

Síldin og makríllinn eru á fleygiferð

,,Síldin og makríllinn eru á mjög mikilli ferð og til marks um það þá höfum við verið að veiða úr mjög góðum bletti sem við fundum við Glettinganestotuna fyrir þremur dögum. Þarna voru gríðarlega góðar lóðningar og á þessum dögum eltum við torfuna um 100 sjómílna leið, fyrst í austur og síðan í suðaustur. Í gær toguðum við samfleytt 30 mílur í suðaustur og það var óhemju mikið að sjá. Í gærkvöldi var eins og að allt gufaði upp. Fyrst héldum við að fiskurinn hefði skellt sér niður á 100 faðma dýpi eða þar um bil, sem ekki er óalgengt, en það var ekki reyndin.“

Þetta segir Stefán Geir Jónsson, sem er skipstjóri á Lundey NS í yfirstandandi veiðiferð, í samtali við heimasíðuna en er rætt var við hann um miðjan daginn var Lundey á leið til Vopnafjarðar með um 380 tonna afla. Áætlað sé að um 220 tonn af síld og 160 tonn af makríl séu í afla skipsins.

Stefán Geir segir að lítill afli hafi fengist í nótt sem leið og þegar ákveðið var að halda til hafnar hafi Lundey verið um 50 mílur frá miðlínunni milli Íslands og Færeyja og í dag séu flest skipin að veiðum um 30 til 40 mílur frá miðlínunni. Veiðisvæðið er því nú í 120 mílna fjarlægð beint austur frá Norðfirði. Svo virðist hins vegar sem að veiðin hafi svo til þurrkast upp í Hvalbakshallinu og á Þórsbankanum, þar sem frystitogarar og uppsjávarveiðiskip hafa verið að makrílveiðum undanfarnar vikur.

,,Vandinn nú er sá að það er erfitt að fá annað en blandaðan afla en fyrr í sumar var hægt að ganga að síld vísri á einum stað en makrílnum á öðrum. Nú er staðan þannig að síldin og makríllinn virðast halda sig meira á sömu slóðum,“ segir Stefán Geir en að sögn hans var hugmyndin sú að auka aðeins við aflamagnið í nótt en sú von brást þegar torfan hvarf.

,,Við eigum eftir um 100 sjómílna siglingu til Vopnafjarðar og þar sem við höfum nokkuð góðan tíma þá er ég að vonast til að hitta á einhverjar lóðningar í Héraðsflóadjúpinu í kvöld og taka eins og eina sköfu,“ segir Stefán Geir en þess má geta að nú er verið að vinna afla úr Faxa RE á Vopnafirði og þeirri vinnu lýkur væntanlega ekki fyrr en einhvern tímann í nótt. Ingunn AK er á leiðinni á miðin en uppsjávarskipin þrjú hafa séð til þess að halda uppi fullri vinnu og gott betur í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði upp á síðkastið.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir