FréttirSkrá á póstlista

31.08.2011

Makrílveiðar frystitogaranna að fjara út

Frystitogarar HB Granda hafa að undanförnu verið að makrílveiðum, fyrst fyrir vestan land og síðan á Austfjarðamiðum. Aflabrögð voru með ágætum framan af en síðustu dagana hefur veiðin dregist saman og aflavonin er helst frá því að dimma tekur að kvöldi og fram á nóttina. Það er tilfinning skipstjóra frystitogaranna að veiðin sé að þorna upp og að makríllinn sé á leiðinni út úr íslenskri lögsögu.

Tíðindamaður heimasíðunnar hafði tal af skipstjórum Helgu Maríu AK, Þerneyjar RE og Venusar HF fyrr í dag en Helga María var þá á Þórsbankanum en hin tvö skipin að veiðum í Hvalbakshallinu.

Eiríkur Ragnarsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, segir að treg veiði hafi verið síðustu þrjá til fjóra dagana og farið sé að bera á meira af síld sem meðafla.

,,Mín tilfinning er sú að þetta sé að verða búið, a.m.k. hjá okkur á frystitogurunum. Við erum með mun smærri troll en uppsjávarveiðiskipin og vélaraflið er sömuleiðis í flestum tilvikum minna. Á móti kemur að við þurfum minna aflamagn en þau þar sem að vinnslu- og frystigetan á hverjum degi ræður því hve mikið við getum veitt,“ segir Eiríkur en þess má geta að makríllinn er heilfrystur um borð í frystitogurum HB Granda.

Ægir Franzson, sem er skipstjóri á Þerney RE í yfirstandandi veiðiferð, tekur í sama streng og telur að makrílveiðar frystitogaranna séu í þann veginn að fjara út á þessari vertíð.

,,Það er veiði yfir blánóttina en aflabrögðin hafa tregast mikið frá því fyrr í sumar. Þá vorum við að makrílveiðum fyrir vestan land en að undanförnu hafa skipin verið að veiðum úti af Austfjörðum. Uppsjávarveiðiskipin eru reyndar að fá ágætan afla á okkar mælikvarða en ég heyri það á skipstjórum þeirra að þeir eru ekkert alltof sáttir við aflabrögðin,“ segir Ægir Franzson.

Að sögn Haraldar Árnasonar, sem er skipstjóri á Venusi HF í yfirstandandi veiðiferð, líður nú að lokum veiðiferðarinnar og hann segir stefnt að því að skipið haldi til hafnar nk. föstudag.

,,Við erum að vonast til að ná fullfermi en það samsvarar sennilega rúmlega 400 tonnum af afurðum,“ segir Haraldur en að hans sögn byrjaði hann veiðiferðina fyrir um 16 dögum í Jökuldjúpi og Kolluálnum vestur af Snæfellsnesi. Þar var veiði í skamman tíma en síðan héldu skipin austur og flotinn hefur verið að veiðum frá Hvalbakshallinu og út á Þórsbankann.

,,Það var ágæt veiði hér fyrir austan í eina tíu daga en síðan fjölgaði skipunum til muna og veiðin tregaðist til muna. Hvort það er skipafjöldanum að kenna eða einfaldlega því að makríllinn er að ganga út úr lögsögunni kann ég ekki að skýra. Maður þekkir ekki göngumynstur makrílsins nógu vel til að hafa skoðun á því,“ segir Haraldur en vert er að hafa í huga að sjávarhiti og ætisframboð stjórnar makrílgöngunum og þekkt er að makríll sæki í stórum stíl inn í norsku lögsöguna á þessum árstíma.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir