FréttirSkrá á póstlista

17.08.2011

Afkoma HB Granda hf. á fyrri árshelmingi 2011

Rekstur fyrstu sex mánaða ársins 2011

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2011 námu 76,3 m€, samanborið við 60,4 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 25,2 m€ eða 33,1% af rekstrartekjum, en var 19,0 m€ eða 31,5% árið áður. Auknar tekjur og hærri EBITDA skýrast einkum af hærra afurðaverði á erlendum mörkuðum. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 4,2 m€, en um 10,9 m€ á sama tíma árið áður. Gengismunur vegna skulda var hverfandi, þar sem meginhluti skulda hefur verið fluttur í evrur. Á fyrri helmingi ársins 2010 varð hins vegar gengistap upp á 8,5 m€ vegna veikingar evru gagnvart öðrum gjaldmiðlum, sem félagið skuldaði í. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,4 m€. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 17,2 m€ og hagnaður tímabilsins var 15,7 m€. Tekjuskattur að fjárhæð 1,5 m€ er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum.

Laun og launatengd gjöld námu samtals 28,3 m€ (4,6 milljarðar króna), en 24,4 m€ (4,1 milljarður króna) á sama tíma árið áður.


Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 314,0 m€ í lok júní 2011. Þar af voru fastafjármunir 256,0 m€ og veltufjármunir 58,0 m€. Eigið fé nam 153,9 m€ og var eiginfjárhlutfall 49,0%, en var 46,5% í lok árs 2010. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 160,1 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 10,8 m€ á fyrri helmingi ársins 2011, en 6,6 m€ á sama tíma fyrra árs. Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 4,9 m€. Fjármögnunarhreyfingar námu 10,9 m€ og voru nettó afborganir langtímalána þar af 8,9 m€. Handbært fé lækkaði því um 5,0 m€ og var í lok júní 6,2 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrri helmings ársins 2011 (1 evra = 161,5 kr) verða tekjur 12,3 milljarðar króna, EBITDA 4,1 milljarður og hagnaður 2,5 milljarðar. Á sama hátt voru tekjur á fyrri helmingi síðasta árs 10,3 milljarðar, EBITDA 3,2 milljarðar og tap 244 milljónir króna (1 evra = 169,9 kr).

Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2011 (1 evra = 165,7 kr) verða eignir samtals 52,0 milljarðar króna, skuldir 26,5 milljarðar og eigið fé 25,5 milljarðar.

Skipastóll og afli

Skipastóll HB Granda hf. var óbreyttur.

Á fyrri helmingi ársins 2011 var afli skipa félagsins 26 þúsund tonn af botnfiski og 63 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir