FréttirSkrá á póstlista

16.08.2011

Nýtt sjókælikerfi skilar ótvíræðum árangri

Nýtt sjókælikerfi, sem sett var um borð í Faxa RE fyrr í sumar, er búið að sanna gildi sitt og er farið að skila ótvíræðum árangri að mati Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði. Magnús segir að skipverjar á Faxa séu búnir að ná góðum tökum á notkun kerfisins og það skili sér í jafnara og betra hráefni og hærra afurðaverði.

Sjókælikerfið var sett í Faxa í Reykjavík og hófst vinna við það verk í maímánuði sl. Töluverð seinkun varð á verkinu og varð hún til þess að Faxi komst ekki til veiða fyrr en í byrjun þessa mánaðar. Faxi hefur verið að veiðum á Þórsbanka í veiðiferðinni sem nú stendur yfir og að sögn Hjalta Einarssonar, sem er skipstjóri í veiðiferðinni, hefur áherslan verið lögð á að veiða makríl en jafnan er töluvert um síld í aflanum.

,,Aflabrögðin hafa verið ágæt. Veiðin er samt töluvert blettótt en ef maður hittir á réttu blettina þá hefur fengist góður afli. Það, sem af er degi, hafa um 20% aflans verið síld í bland við makrílinn, og stefnan er sett á að ná a.m.k. 350 tonna afla en það er sá skammtur sem þarf til að halda vinnslunni á Vopnafirði í fullum gangi miðað við að Ingunn AK og Lundey NS séu með það sama,“ segir Hjalti en að hans sögn er gert ráð fyrir því að Faxi komi til hafnar á Vopnafirði í kvöld.

Hjalti segir að tekið hafi nokkurn tíma að ná tökum á nýja sjókælikerfinu en búið sé að stilla kerfið þannig að nú virkar allt eins og best verður á kosið.

,,Kælingin er farin að virka mjög vel og við erum farnir að setja salt í lestarnar á landleiðinni eða í höfn en það skilar sér í stinnari og fallegri fiski,“ segir Hjalti. Auk nýja sjókælikerfisins var sett ný flottrollstromla í skipið en þótt ekki hafi mikið reynt á hana fram að þessu þá segir Hjalti að tromlan lofi góðu. Hægt verði að nota stærri troll og auðveldara verði að taka stærri hol ef svo ber undir.

 

Jafnara hitastig – betra hráefni

Magnús Róbertsson á Vopnafirði segir engan vafa leika á því að nýi sjókælibúnaðurinn eigi eftir að nýtast vel í framtíðinni.
,,Krapakerfi, eins og það sem var í Faxa, getur virkað mjög vel en með sjókælikerfinu er hægt að halda miklu jafnara hitastigi í lestunum og það skilar sér í jafn betra hráefni. Fiskurinn er stinnari. Tekin eru stutt hol og lítið magn í einu og allt þetta stuðlar að auknum hráefnis- og afurðagæðum,“ segir Magnús Róbertsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir