FréttirSkrá á póstlista

15.08.2011

Mikil aukning í vinnslu til manneldis

Það sem af er síldar- og makrílvertíðinni hafa verið fryst samtals rúmlega 10.000 tonn af afurðum í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði en það er um 3.000 tonnum meira en á sama tíma í fyrra. Þessi mikla aukning er þeim mun merkilegri fyrir þær sakir að aflamagnið er töluvert minna í sumar en í fyrrasumar en aflasamdrátturinn skýrist aðallega af því að Faxi RE komst ekki til veiða fyrr en í byrjun þessa mánaðar vegna breytinga en Ingunn AK og Lundey NS hafa verið að veiðum frá því í byrjun júní.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er kvótastaðan góð. Búið er að veiða um 8.000 tonn af síld og um 9.000 tonn af makríl en aflamark HB Granda í umræddum tegunum er 20.800 tonn af norsk-íslenskri síld og 15.500 tonn af makríl. Alls eiga skip HB Granda því óveidd um 19.000 tonn af alls um 36.300 tonna heildarkvóta.

Góður gangur hefur verið í makrílveiðum og –vinnslu að undanförnu en aðaláherslan hefur verið lögð á makrílinn. Uppistaða aflans hefur verið makríll og hefur hann allur nýst til vinnslu. Makríllinn er aðallega hausaður og slógdreginn í vinnslunni á Vopnafirði fyrir frystingu en stærsti makríllinn hefur einnig verið heilfrystur í nýjum blástursfrysti sem fjárfest var í fyrir vertíðina. Samfelld vinnsla hefur verið í uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði eftir að Faxi fór til veiða og eina vinnslustoppið er hlé sem gert var vegna þrifa á vinnslubúnaði.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, hefur allt gengið eins og í sögu í vinnslunni og ef aflabrögð haldast áfram góð eru allar horfur á því að vertíðin standi fram í októbermánuð. Vinnslugetan er um 250 tonn af afurðum á sólarhring þegar verið er að vinna makríl en líkt og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá munar verulega um tilkomu nýja blásturfrystisins og þá aðallega varðandi frystingu á stærsta makrílnum.

Af skipunum er það annars helst að frétta að þau hafa verið að veiðum um 120 til 150 sjómílur frá Vopnafirði. Faxi er t.a.m. að veiðum á Þórsbanka í dag, löndun lauk úr Lundey í kvöld og vinnsla úr Ingunni tekur við. Síðan er á Faxa til að taka við af Ingunni annað kvöld. Skipin, sem verið hafa að síldveiðum, eru mun norðar og m.a. eru síldveiðarnar stundaðar út af Vopnafirði um þessar mundir.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir