FréttirSkrá á póstlista

29.07.2011

Blásturfrystirinn hefur skipt sköpum

Það verður unnið við frystingu á síld og makríl hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda um verslunarmannahelgina og að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra verður ekkert slegið af fyrr en í haust þegar lokið verður við að veiða úthlutaðar veiðiheimildir í síld og makríl.

,,Vinnslan hefur gengið eins og í sögu. Að vísu hefur dottið úr stöku dagur þar sem að Faxi RE hefur verið í breytingum og ekki tekið þátt í veiðunum en við höfum nýtt þá daga vel til þrifa og ýmissa lagfæringa,“ segir Magnús en nú vinna um 120 manns í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði og því er óhætt að fullyrða að uppsjávarvinnslan sé sannkölluð stóriðja í byggðarlaginu.

Að sögn Magnúsar skiptir það sköpum fyrir vinnsluna og þá einkum hvað varðar vinnslu á makríl að fyrr í sumar var tekinn í notkun nýr og öflugur blásturfrystir í uppsjávarfrystihúsinu.

,,Tilkoma blásturfrystisins gerir okkur kleift að frysta stærsta makrílinn, sem við hefðum ella ekki getað unnið með góðu móti, og afurðirnar eru mjög flott vara sem fallið hefur kaupendum vel í geð. Ef við hefðum ekki haft blásturfrystinn þá hefðum við sömuleiðis átt í erfiðleikum með að uppfylla vinnsluskylduna á makríl en samkvæmt reglugerð ráðuneytisins þá þurfum við að vinna a.m.k. 70% makrílaflans til manneldis,“ segir Magnús Róbertsson.

Því má bæta við þetta að vonir standa til að Faxi komist til veiða einhvern næstu daga og ef allt gengur að óskum þá gæti það orðið nú um helgina. Ingunn AK og Lundey NS hafa séð um hráefnisöflun fyrir frystihúsið í sumar og þegar Faxi fer til veiða ætti að vera tryggt að hægt verði að halda uppi samfelldri vinnslu á Vopnafirði til vertíðarloka.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir