FréttirSkrá á póstlista

28.07.2011

Hækkandi sjávarhiti og aukin makrílveiði

Svo virðist sem að aukinn kraftur sé að færast í makrílveiðar íslenskra skipa fyrir austan landið í kjölfar hækkandi sjávarhita. Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey NS, segir umtalsverða breytingu hafa orðið síðustu dagana en sjávarhitinn hafi hækkað á tiltölulega skömmum tíma um allt að 2,5 gráður.

Lundey er væntanleg til Vopnafjarðar síðdegis með um 500 tonna makrílafla. Skipið var að veiðum í Hvalbakshallinu og Rósagarðinum og fékkst þessi afli í þremur holum á tæpum sólarhring.

,,Það er búin að vera léleg makrílveiði fyrir austan upp á síðkastið enda hefur sjórinn verið mjög kaldur. Síðustu dagana hefur hitastigið hins vegar hækkað úr um 5,5°C í 7-8°C og það munar öllu hvað makrílveiðarnar varðar. Hér hafa verið lélegar lóðningar en núna virðist makríllinn vera að þétta sig og smáblettir eru að skila mjög skarpri veiði,“ segir Arnþór en það vakti athygli skipverja á Lundey að þeir sáu ekki eitt einasta skip í veiðiferðinni.

,,Vilhelm Þorsteinsson EA og Hákon EA voru á þessu svæði í gær en þeir voru farnir þegar við komum þangað. Flest skip, sem verið hafa að eltast við makríl, hafa verið að veiðum fyrir sunnan og vestan landið og svo eru margir búnir að veiða mun meira af makríl en við og þeir verða að gæta þess að eiga einhvern makrílkvóta eftir til þess að lenda ekki í vandræðum á síldveiðunum.“

Að sögn Arnþórs var enga síld að hafa á veiðisvæðinu en hann segir að skip hafi fengið síld sunnar og einnig norðar.

,,Í síðustu veiðiferð vorum við mun norðar og austar, eða allt norður á 65°N og 9°V, og þar fengum við síld til helminga á móti makrílnum,“ segir Arnþór Hjörleifsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir