FréttirSkrá á póstlista

22.07.2011

Minni uppsjávarafli en meira til manneldis

Veiðar á norsk-íslenskri síld og makríl hafa gengið vel í sumar og hafa skip HB Granda nú landað um 11.000 tonnum af síld og makríl á Vopnafirði. Þetta er um 5.000 tonnum minni afli en á sama tíma í fyrra en þrátt fyrir það hefur verið aukning í vinnslu til manneldis. Búið er að frysta um 6.000 tonn af afurðum og er það aukning um 600 tonn milli ára.
Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hefur gengið nokkuð vel að halda uppi vinnslu í uppsjávarfrystihúsi félagsins á Vopnafirði þar sem á annað hundrað manns starfa nú í sumar.

,,Veiðar Ingunnar AK og Lundeyjar NS hafa gengið vel en það munar verulega um það að Faxi RE hefur enn ekki farið til veiða vegna breytinga, sem verið er að gera á skipinu, en við vonumst til að Faxi fari til veiða á næstu dögum. Þá munar einnig um að veiðarnar hófust um 10 dögum síðar í ár en á vertíðinni í fyrra,“ segir Vilhjálmur en er rætt var við hann var verið að ljúka við löndun á um 400 tonna makríl- og síldarafla Ingunnar á Vopnafirði og Lundey var þá að leggja af stað frá miðunum áleiðis til hafnar með um 450 tonna afla en uppistaða hans er makríll.

 

Loðnuveiðar Norðmanna ganga vel

Það hefur vakið athygli manna að á sama tíma og íslenskum skipum er bannað að veiða loðnu hafa norsk skip verið að fá ágætan loðnuafla úr íslenska loðnustofninum rétt utan lögsögulínunnar norður af Vestfjörðum. Samkvæmt ákvörðun landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra mega íslensk skip ekki hefja veiðar fyrr en 1. október nk. Vilhjálmur segist eiga erfitt að skilja ástæður þessa veiðibanns en hann reiknar þó ekki með því að mörg íslensk skip væru farin til veiða ef loðnuveiðar væru leyfðar á þessum árstíma.

,,Uppsjávarveiðiskipin einbeita sér nú að síldar- og makrílveiðum en hugsanlega hefðu tvö til þrjú skip farið til loðnuveiða í sumar ef veiðibann væri ekki í gildi,“ segir Vilhjálmur en að hans sögn hafa alls 35 norsk skip tilkynnt um loðnuafla í sumar og í morgun nam heildarafli þeirra alls rúmlega 44.000 tonnum samkvæmt upplýsingum sölusamtakanna Norges Sildesalgslag. Hann segir að auk norsku skipanna stundi dönsk skip og eitt grænlenskt skip loðnuveiðarnar. Norsk stjórnvöld hafa gefið út heimildir til norskra skipa til veiða á 102.636 tonnum úr íslenska loðnustofninum á vertíðinni. Þar af mega norsku skipin veiða 66.525 tonn í grænlenskri lögsögu eða við Jan Mayen í sumar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir