FréttirSkrá á póstlista

22.07.2011

Makrílveiðarnar eru skemmtileg tilbreyting

Makrílveiðar ísfisktogara HB Granda ganga vel og í gær lauk áhöfnin á Ásbirni RE við að veiða skammtinn en um 140 tonn af makríl komu í hlut hvers hinna þriggja ísfisktogara félagsins. Aflinn fékkst í þremur veiðiferðum og var honum landað ísuðum til vinnslu hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi.

Að sögn Friðleifs Einarssonar, skipstjóra á Ásbirni, var farið til veiðanna sl. laugardag og hófust þær í Grindavíkurdjúpi.

,,Það tók smá tíma að ná tökum á þessu í fyrstu veiðiferðinni en síðan fórum við tvær veiðiferðir í Jökuldjúpið og allt gekk að óskum. Það virðist vera nóg af makríl sunnan og vestan við landið en því miður er hann ekki eins stór og feitur og hann var á þessum árstíma í fyrra. Það var kuldatíð í vor og framan af sumri, kalt í hafinu og allt mikið seinna á ferðinni en við höfum átt að venjast,“ segir Friðleifur en hann neitar því ekki að það sé skemmtileg tilbreyting frá honum hefðbundnu karfa- og ufsaveiðum, með þorski í bland, að fá tækifæri til að spreyta sig á makrílveiðum með flottrolli.

,,Þetta er í eina skiptið á árinu sem við veiðum í flottroll en annars notum við bara botntroll,“ segir Friðleifur en að hans sögn hafa bolfiskveiðarnar gengið vel í ár.

Nú á aðeins einn ísfisktogaranna, Sturlaugur H. Böðvarsson AK, eftir að fara til makrílveiða á þessu ári og er stefnt að því að veiðarnar hefjist um helgina.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir