FréttirSkrá á póstlista

20.07.2011

Metvika í Norðurgarði og makrílvinnsla hafin á Akranesi

Það hefur verið kraftur í landvinnslu HB Granda í fiskiðjuverinu í Norðurgarði í Reykjavík. Í liðinni viku voru alls unnin tæplega 570 tonn af karfa og ufsa í húsinu og hefur ekki meira magn farið þar til vinnslu í einstakri viku á þessu ári. Í sömu viku hófst vinnsla á makríl á vegum félagsins á Akranesi en þar voru fryst um 140 tonn af makríl sem ísfisktogarinn Ottó N. Þorláksson RE kom með til hafnar.

Að sögn Bergs Einarssonar, verkstjóra í landvinnslunni í Reykjavík, hefur verið mikil vinna í fiskiðjuverinu að undanförnu. Unnið hefur verið frá kl. 6 á morgnana fram til kl. 18 virka daga og á laugardögum hefur vinnsla verið á milli kl. 6 og 12. Starfsmenn eru alls um 135 talsins og þar af eru um 80 unglingar í sumarafleysingum.

,,Skólakrakkarnir hafa staðið sig virkilega vel og stuðlað að því að hægt hefur verið að vinna allt þetta magn sem berst að landi þessa dagana. Þeir hafa verið duglegir við að mæta í yfirvinnuna og margir þeirra hafa komið hjólandi í vinnuna fyrir klukkan sex á morgnana,“ segir Bergur en þess má geta að af þessum tæplega 570 tonnum, sem unnin voru í metvikunni, voru 313 tonn af karfa og 254 tonn af ufsa.

Samkvæmt upplýsingum Torfa Þorsteinssonar, framleiðslustjóra landvinnslu HB Granda, hófust makrílveiðar ísfisktogaranna í síðustu viku en Ottó N. Þorláksson RE veiddi þá sinn skammt af makrílkvótanum. Aflanum var landað á Akranesi og fór hann til vinnslu hjá fiskiðjuveri HB Granda á staðnum. Þetta er í fyrsta skipti sem makríll er unninn í húsinu og segir Torfi að þessi frumraun hafi gengið mjög vel og lofi góðu um framhaldið. 

,,Makrílvinnslan stóð yfir í fjóra daga. Í vinnslunni eru um 35 starfsmenn. Við erum með öflugt starfsfólk og það ásamt góðum undirbúningi, góðu hráefni og samhæfingu veiða og vinnslu er forsenda þess góða árangurs sem ég tel að hafi náðst í makrílvinnslunni,“ segir Torfi en unnið var við makrílvinnsluna frá kl. 6 til 18 og stundum lengur til að hægt væri að koma afurðunum sem ferskustum í frystingu. Allur aflinn var heilfrystur og megnið af honum fór í lausfrystingu. Að sögn Torfa var frágangurinn á makrílaflanum um borð í Ottó til mikillar fyrirmyndar og þess hafi verið gætt að toga ekki of lengi og veiða ekki of mikið af makríl í hverju holi.

Ísfisktogarinn Ásbjörn RE er nú á makrílveiðum og í næstu viku fer síðan Sturlaugur H. Böðvarsson AK til veiða og tekur sinn skammt af makrílkvóta ársins.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir