FréttirSkrá á póstlista

30.06.2011

Aukin verðmætasköpun á Vopnafirði

Góður gangur hefur verið í vinnslu á síld og makríl í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði nú í sumar. Búið er að taka á móti alls um 4.300 tonnum af síld og makríl og þar af er síldaraflinn tæplega 2.600 tonn. Tveir nýir blásturfrystiklefar voru teknir í notkun í vertíðarbyrjun og með tilkomu þeirra er hægt að auka verðmæti afurðanna.

Þorgrímur Kjartansson, gæðastjóri uppsjávarvinnslu HB Granda og staðgengill vinnslustjóra, segir að vinnslan á Vopnafirði hafi gengið mjög vel í sumar. Um 100 til 120 manns vinna að jafnaði á vöktum hjá fyrirtækinu og þótt kalt vor og sumarbyrjun hafi orðið þess valdandi að aflabrögð hafi verið minni en vonir stóðu til, hefur full vinnsla verið í frystihúsinu sl. hálfan mánuð. Tveir nýir blásturfrystar voru teknir í notkun nú í sumar og við þá og vinnslulínuna vinna alls um 20 manns á tvískiptum vöktum.

,,Reynslan af blásturfrystunum hefur verið mjög góð. Með tilkomu þeirra getum við fryst stærsta makrílinn fyrir verðmætustu markaðina en fram að þessu hefur stærsti fiskurinn einfaldlega verið of stór fyrir þá hefðbundu plötufrysta sem við höfum notað fram að þessu og enn eru í notkun. Nú heyrir það sögunni til og við getum þjónað mörkuðum sem aðeins vilja blásturfrystan, stóran makríl,“ segir Þorgrímur en þess má geta að fram að þessu hafa frystiklefarnir aðeins verið notaðir til þess að heilfrysta stærsta makrílinn og stærstu síldina. Notkunargildið er þó margfalt meira og Þorgrímur segir að þá megi einnig nota til þess að frysta loðnu eða síldarflök svo dæmi séu nefnd. Tilkoma blásturfrystanna hjálpar einnig til þess að ná þeirri 70% vinnsluskyldu á makríl til manneldis sem nýleg reglugerð kveður á um.

Er rætt var við Þorgrím var Ingunn AK í höfn á Vopnafirði með um 180 tonna makrílafla og Lundey NS var þá á miðunum við suðausturströndina. Aflinn eftir fyrsta kast dagsins var áætlaður um 120 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir