FréttirSkrá á póstlista

15.06.2011

30 ára afmæli tveggja ísfisktogara HB Granda

Tímamót eru hjá tveimur af ísfisktogurum HB Granda um þessar mundir en nú í sumar eru 30 ár síðan Ottó N. Þorláksson RE 203 og Sturlaugur H. Böðvarsson AK 10 fóru fyrst til veiða. Báðir togararnir eru íslensk smíði. Ottó var smíðaður í Stálvík í Garðabæ fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur (BÚR), sem fékk skipið afhent í byrjun júní 1981, og Sturlaugur, sem fyrst fékk nafnið Sigurfari II SH 105, var smíðaður hjá skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts á Akranesi fyrir Hjálmar Gunnarsson, útgerðarmann í Grundarfirði. Afhending var í lok júlí árið 1981.

Ottó N. Þorláksson, sem heitinn er eftir fyrsta forseta ASÍ, þótti vera tímamótaskip þegar það bættist í flota BÚR á sínum tíma en það fyrirtæki var einn af forverum HB Granda s.s. kunnugt er. Þetta var fyrsti togarinn sem BÚR lét smíða á Íslandi en áður hafði fyrirtækið látið smíða fyrir sig 13 skip erlendis. Þá var skipið byggt samkvæmt nýju skrokklagi, sem hannað var hjá Stálvík í samvinnu við Sigurð Ingvarsson, tæknifræðing í Svíþjóð, en við þróun þess var horft til líkamsbyggingar búrhvala. Fékk þetta skrokklag heitið BÚR-lagið. Eins var skrúfubúnaðurinn nýbreytni á þessum tíma. Skrúfan var mun stærri en menn áttu að venjast í skipum af þessari stærð og snerist einnig hægar. Í viðtali við Jón Sveinsson, fyrrverandi forstjóra Stálvíkur, í Morgunblaðinu í maí 2002 kemur fram að BÚR-skrokklagið hafi svo sannarlega slegið í gegn og í prófunum á líkani af skipinu í Danmörku á sínum tíma hafi komið í ljós að mótstaða skrokksins í sjó hafi verið 39% minni en á öðrum líkönum sem prófuð höfðu verið fram til þess tíma.

Sturlaugur H. Böðvarsson eða Sigurfari II, eins og skipið hét í upphafi, var nýsmíði nr. 35 hjá Þorgeiri og Ellert á Akranesi. Skipið komst í eigu Haraldar Böðvarssonar hf. um miðjan níunda áratuginn er það var keypt til Akraness af Fiskveiðasjóði. Það bættist svo í flota HB Granda eftir sameiningu Haraldar Böðvarssonar hf. og Granda hf. á árinu 2004.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir