FréttirSkrá á póstlista

14.06.2011

1.100 tonnum af síld og makríl landað á Vopnafirði

Þrátt fyrir að leit eftir síld innan íslenskrar lögsögu, á hinu alþjóðlega hafsvæði í Síldarsmugunni og í lögsögu Jan Mayen, hafi lítinn árangur borið í liðinni viku þá hafa skip HB Granda nú þegar borið að landi um 1.100 tonn af síld og makríl á nýhafinni vertíð. Þessi afli fékkst í færeysku lögsögunni um helgina en vegna milliríkjasamninga, sem kveða á um að íslensk skip megi ekki veiða meira en 1.300 tonn af makríl innan færeyskrar landhelgi, þá verða íslensku skipin að halda sig utan hennar, jafnvel þótt markmiðið sé síldveiðar.

Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, kom Lundey NS með um 400 tonn af síld og makríl til Vopnafjarðar sl. sunnudagskvöld. Í gærmorgun var síðan Ingunn AK í höfn með um 700 tonna afla.

,,Aflinn er síld og makríll nánast til helminga og þar sem að makrílkvótinn í færeysku lögsögunni er ekki meiri en raun ber vitni, þá verða skipin að leita annað,“ segir Ingimundur en að sögn hans er uppistaðan í aflanum frekar smár og magur fiskur. Vinnsla á Vopnafirði er komin í fullan gang og hefur hún gengið vel. Líkt og fram kom hér á vefnum í síðustu viku þá hefur verið vetrarástand í hafinu NA af landinu en með batnandi tíð og hækkandi hitastigi vonast menn til að síldin og makríllinn braggist og að veiðar geti hafist af krafti innan íslenskrar landhelgi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir