FréttirSkrá á póstlista

07.06.2011

Úrslit í ljósmyndasamkeppni HB Granda

Úrslit í ljósmyndakeppni meðal starfsmanna HB Granda voru kunngerð á árshátíð starfsmanna í Gullinhömrum sl. laugardagskvöld. Niðurstaða dómnefndar var sú að Hjalti Gunnarsson, vélstjóri á Þerney RE, hefði tekið bestu mynd keppninnar og hlaut hann að launum forláta Canon EOS 550D myndavél með 18-55 mm linsu að verðmæti 180.000 króna.

Á sigurmynd Hjalta má sjá þrjá skipverja á Þerney í haugasjó suður af Reykjanesi 9. janúar sl. Verið er að lása úr öðrum toghleranum og að sögn Hjalta stóð lásinn á sér og því þurfti að fá þriðja manninn til aðstoðar við verkið en venjulega sjá tveir skipverjar um verk sem þetta. Hjalti segir að sem betur fer sé sjólagið sjaldan jafnt slæmt og það var þennan dag. Myndin var tekin á gamla Canon EOS myndavél og að sögn Hjalta koma verðlaunin sér mjög vel því hann hafi verið farinn að huga að því að skipta út gömlu vélinni fyrir aðra nýja.

Hjalti hefur verið vélstjóri á Þerney frá því á árinu 2007 en hann útskrifaðist úr Vélskóla Íslands vorið 2005. Þaðan lá leiðin á sjóinn og áður en hann fékk starf á Þerney var hann m.a. í eitt ár á öðru skipi HB Granda, Helgu Maríu AK.

Mjög góð þátttaka var í ljósmyndasamkeppninni en keppt var í þremur efnisflokkum og tveimur gæðaflokkum innan þeirra, þ.e.a.s. eftir upplausn og gæði mynda (vefgæði - minni en 8 Mpixel, prentgæði – meiri en 8 Mpixel). Efnisflokkarnir voru eftirtaldir: a. Starfsemi HB Granda. b. Fólkið í HB Granda. c. Umhverfi HB Granda. Dómnefndina skipuðu: Kristján Maack, ljósmyndari, Valgerður Guðrún Halldórsdóttir, grafískur hönnuður, Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Sigurvegarar í einstökum flokkum voru þessir:

Starfsemi HB Granda, prentgæði: Hjalti Gunnarsson, Þerney en þessi mynd var einnig valin besta mynd keppninnar. Starfsemi HB Granda, vefgæði: Björn Bragi Sigmundsson, Örfirisey Fólkið í HB Granda, prentgæði: Jón Sigurðarson, Vopnafirði. Fólkið í HB Granda, vefgæði: Jón Sigurðarson, Vopnafirði. Umhverfi HB Granda, prentgæði: Símon Xianqing Quan, Reykjavík. Umhverfi HB Granda, vefgæði: Guðmundur Þór Pálsson, Venusi. Verðlaun fyrir sigur í einstökum flokkum var Canon Ixus 115 myndavél en aðalverðlaunin voru sem fyrr segir Canon EOS 550D myndavél.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir