FréttirSkrá á póstlista

06.06.2011

Fjölmenni í sjómannadagskaffi HB Granda

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur um land allt í gær. Í Reykjavík var haldin Hátíð hafsins þar sem hver viðburðurinn rak annan á Grandagarði og annars staðar á hafnarsvæðinu. HB Grandi tók virkan þátt í hátíðahöldunum að þessu sinni sem fyrr en gestum og gangandi var boðið í sjómannadagskaffi og tónlistarflutning í húsakynnum félagsins að Norðurgarði.

Að sögn Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra HB Granda, var sjómannadagurinn mjög ánægjulegur. Á níunda hundrað manns lögðu leið sína í höfuðstöðvar félagsins, nutu þar kaffiveitinga og hlýddu á tónlistarflutning siglfirsku sveitanna Miðaldamanna og Góma en Siglufjörður (Fjallabyggð) var gestasveitarfélag Hátíðar hafsins að þessu sinni. Svo mikil var stemningin að hátíðargestir stigu dans í takt við tónlist Miðaldamanna og Góma á milli þess sem þeir nutu ljúffengra veitinga. Þess má geta að Slysavarnadeild kvenna í Reykjavík sá um meðlætið í sjómannadagskaffinu en tekjur af því eru liður í fjáröflun til björgunarmála á vegum sveitarinnar.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir