FréttirSkrá á póstlista

13.05.2011

Fjórir togarar HB Granda á úthafskarfaveiðum

Fjórir frystitogarar HB Granda eru nú á úthafskarfaveiðum rétt utan íslensku lögsögunnar á Reykjaneshryggnum. Veiðarnar máttu hefjast sl. þriðjudag, 10. maí, en skip HB Granda hófu veiðar degi síðar.

Að sögn Rúnars Þórs Stefánssonar, útgerðarstjóra HB Granda, eru það Venus HF, Þerney RE, Helga María AK og Örfirisey RE sem stunda veiðarnar og hafa skipin verið að veiðum um 10 til 20 sjómílur fyrir utan landhelgislínuna. 

Samkvæmt samkomulagi frá því um miðjan mars sl, sem náðist á fundi þeirra þjóða sem rétt eiga á veiðum úr stofninum, að Rússum undanskilum, verður heildarkvóti á úthafskarfaveiði úr svokölluðum neðri stofni 38.000 tonn á þessu ári.

Rúnar Þór segir að úthafskarfakvóti skipa HB Granda sé 3.591 tonn á þessu ári. Það er um 20% skerðing á kvóta fyrra árs sem var 4.496 tonn. Mikill samdráttur hefur verið í útgefnum úthafskarfakvótum undanfarin ár og til samanburðar má nefna að kvóti skipa HB Granda nú er aðeins rúmlega fimmtungur af kvóta ársins 2004 þegar 16.748 tonn komu í hlut félagsins.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir