FréttirSkrá á póstlista

10.05.2011

Mikil fjölgun starfsmanna HB Granda á Vopnafirði

Undirbúningur vegna komandi síldar- og makrílvertíðar er í fullum gangi hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði og fyrirsjáanleg er mikil fjölgun starfsmanna í sumar og fram eftir hausti. Fastráðnir starfsmenn í frystihúsinu eru að jafnaði um 40 talsins en í sumar munu á annað hundrað manns taka þátt í fiskvinnslunni á staðnum.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra skýrist þessi aukning m.a. af því að nú er verið að setja upp nýjan blástursfrysti sem stærsti makríllinn verður frystur í. Með því að flokka stærsta makrílinn frá og blástursfrysta fáist aukin verðmæti miðað við frystingu í pönnufrystunum sem fyrir eru.

,,Bara tilkoma blástursfrystisins kallar á 15 til 20 ný störf og þar fyrir utan þurfum við að bæta við um 40 störfum í sumar,“ segir Magnús Róbertsson.

Þótt ekki hafi verið auglýst eftir starfsfólki til að standa vaktina í sumar og fram eftir hausti hafa nú þegar um 115 umsóknir um störf borist HB Granda á Vopnafirði. Unglingar á Vopnafirði og í nærsveitum fengu í fyrrasumar sumarvinnu í frystihúsinu en þá hafði slík vinna ekki staðið þessum aldurshópi til boða í áratugi. Þetta mæltist mjög vel fyrir að sögn Magnúsar. Hann vonast til að vertíðin geti staðið vel fram í septembermánuð og þar sem skólakrakkarnir verði flestir að setjast á skólabekk að nýju um miðjan ágúst þá sé ljóst að manna verði vinnsluna með fleirum en bara unglingum. Að sögn Magnúsar ganga heimamenn fyrir um vinnu og einnig þeir sem fengið geta gistingu hjá vinum og vandamönnum á meðan vertíðinni stendur. Þrátt fyrir það þurfi félagið örugglega að leigja húsnæði á Vopnafirði fyrir um 15 til 20 manns í sumar og fram á haustið. Stefnt er að því að skip HB Granda fari til veiða á síld og makríl í byrjun júní.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir