FréttirSkrá á póstlista

05.05.2011

Íslensku vottunarleiðinni vel tekið

Veiðar Íslendinga á þorski innan íslensku fiskveiðilögsögunnar fengu í desember síðastliðnum alþjóðlega vottun um það að veiðarnar séu í samræmi við ströngustu kröfur um ábyrga fiskveiðistjórn og góða umgengni um auðlindir sjávar (Iceland Responsible Fisheries). Síðan hefur verið unnið markvisst að kynningu þessa framtaks. Nú síðast var íslenska umhverfismerkið í sviðsljósinu á mikilvægum kynningarfundi, sem haldinn var í tengslum við sjávarútvegssýninguna í Brussel.

Íslandsstofa hafði veg og vanda af kynningunni en Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda og formaður fagráðs sjávarútvegs Íslandsstofu, setti fundinn og stýrði honum. Að auki gerði hann fundargestum grein fyrir tildrögum þessa vottunarverkefnis, hvernig það hefði þróast, stöðu þess nú og framtíðaráherslum. Eggert Benedikt sagði að undirtektir hefðu verið mjög góðar og að á næstunni væri stefnt að því að óska eftir alþjóðlegri vottun fyrir fleiri fiskstofna, s.s. ýsu, ufsa og gullkarfa undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.

Fjallað er um kynningarfundinn á heimasíðu Íslandsstofu, en þar kemur fram að aðalræðumaður á kynningarfundinum hafi verið Quentin Clark frá Waitrose í Bretlandi. Quentin lýsti afstöðu Waitrose til vottunar á ábyrgum veiðum og lýsti ánægju sinni með íslenska verkefnið. Fram kemur að fréttamiðillinn Seafoodnews.com hafi gert fundinum ítarleg skil og í þeirri umfjöllun komi fram að íslenska vottunarleiðin sé að vinna sér sess og breskar verslanakeðjur fagni því framtaki sem unnið er undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Gæði á íslenska fiskinum og vottun á þorskveiðum hafi t.d. skipt sköpum í söluaukningu hjá Waitrose.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir