FréttirSkrá á póstlista

02.05.2011

Aðalfundur HB Granda hf. 29. apríl 2011

Skýrsla formanns stjórnar Árna Vilhjálmssonar

Fundarstjóri, góðir fundarmenn
Eins og venjulega ætla ég að byrja skýrslu mína á því að gera
stutta grein fyrir fjárhagslegri útkomu síðasta reikningsárs. (glæra 1)
Rekstrartekjur samstæðunnar námu 144,8 m€, sem svarar til 23.440
mkr. á meðalgengi ársins. Tekjurnar í € hækkuðu frá fyrra ári um
17%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, nam 41,2 m€, sem
gerir 28,5% af rekstrartekjum. Þetta telst vera góður árangur hér á
bæ. En því miður hefur okkur ekki auðnast að halda almennilega á
þessum árangri. Auk mjög ásættanlegra fjármagnsgjalda í formi vaxta
kemur svo til frádráttar í rekstrarreikningi hrikalegur gengismunur,
þ.e.a.s. gengistap að fjárhæð 8,2 m€. Þetta tap stafar að stærstum
hluta af því að á árinu lækkaði gengi evru, uppgjörsgjaldmiðils okkar,
gagnvart mikilvægum öðrum gjaldmiðlum, þannig að langtímaskuldir
okkar í þeim gjaldmiðlum hækkuðu við umreikning í evrur. Tæpur
helmingur (49,5%) þessa taps féll á okkur á fyrstu 3 mánuðum ársins.
Meginhluta þessara langtímaskulda var svo breytt á árinu, þannig að
hlutdeild skulda í evrum hækkaði frá upphafi til loka ársins úr 28% í
rúm 96%, og ætti okkur þar með að verða forðað frá annarri viðlíka
uppákomu. – Rekstrarreikningur sýnir, að hagnaður fyrir tekjuskatt
hefur numið 18,8 m€. Fjárhæðin sem frá er dregin sem tekjuskattur
ársins, er firnahá, 11,0 m€, sem gerir 58% af ætluðum skattstofni eins
og hann er í augum leikmanns. En á það er nú að líta, að fyrir rúmum
2 árum, þegar við kusum að ganga evrunni á hönd sem
uppgjörsgjaldmiðli, þá ákváðum við jafnframt að neyta réttar okkar til
að telja fram til skatts á grundvelli uppgjörs í íslenskum kr. Innifalin í
skattfjárhæðinni eru vissulega 18% af jafngildi 18,8 m€ í íslenskum
kr., en líka sitthvað fleira, sem gerir víst engum viðstaddra gott að
heyra frekar um, nema það að áðurnefnt gengistap myndar ekki
frádráttarbær gjöld í íslenska uppgjörinu; og vegna hækkunar
skattprósentu fyrir yfirstandandi ár um 2% er gjaldfærður 20%
tekjuskattur af gengistapinu. Niðurstaðan er, að hagnaður ársins hafi
verið um 7,8 m€, sem jafngildir 1.266 mkr á meðalverðlagi ársins. Til
samanburðar má nefna, að hagnaður þriggja undanfarandi ára nam

að meðaltali um 2.050 mkr, en þar á undan, árið 2006 var eina tapár
félagsins á öldinni, með 1.980 mkr. í tap.
Við skulum nú líta á breytingarnar, sem urðu á árinu á
fjárhagslegri stöðu félagsins (glæra 2). Þær urðu reyndar smáar.
Bókvirði rekstrarfjármuna, þ.e. skipa og vinnslustöðva, stóð nokkurn
veginn í stað í rúmum 96 m€. Það þýðir, að fjárfestingar í
framleiðslutækjum, sem kostuðu 11,4 m€, námu svipaðri fjárhæð og
afskriftir. Engin breyting varð á óefnislegum eignum, sem eru að
langstærstum hluta (99%) fólgnar í matsvirði veiðiheimilda. Aðrar
eignir hækka um 7,6 m€ nettó. Þar er um að ræða aukningu birgða
um 3,6 m€ af klakfiski til framleiðslu á laxahrognum hjá Stofnfiski og
rúmlega 4 m€ virðishækkun tengd hlutdeildarfélagi okkar í Chile.
Aukin fjárbinding í veltufjármunum er að ég hygg í eðlilegum
tengslum við þarfir vegna aukinna umsvifa. Við sjáum, að eigið fé
hefur hækkað nokkuð, um 8,5 m€, að stærstum hluta vegna
hagnaðar að frádreginni arðgreiðslu. Skuldir hafa aukist um 6,5 m€
og samsetning þeirra eftir tímalengd hefur gjörbreyst. Það gerðist
aðallega í einu lagi rétt fyrir aðalfund í fyrra. Það er hentugt að taka
saman meginbreytingarnar, sem orðið hafa á fjármagnsskipan
fyrirtækisins, með þeim hætti að draga veltufjármuni frá samtölu
skulda á þeirri forsendu, að veltufjármunir, aðrir en handbært fé, séu
nægilega öruggir til að geta talist ígildi handbærs fjár. Þannig fæst
útkoma um hreinar skuldir. Við sjáum þá fyrir okkur fastafjármuni sem
fjármagnaða með blöndu af eigin fé og hreinum skuldum eða, sem er
jafn gilt: Við getum séð fyrir okkur, að aukningu eigin fjár upp á 8,5
m€ hefur verið ráðstafað til að auka við fastafjármuni um 7,5 m€ og til
að lækka hreinar skuldir um 1,0 m€. Í rauninni hefur það að
undanförnu verið ósk okkar og viðleitni, að hreinar skuldir færu
lækkandi og þá um leið að unnt yrði að fjármagna æskilega aukningu
fastafjármuna með eigin fé. Þetta ár tókst að lækka hreina skuld um 1
m€, og eiginfjárhlutfallið hækkaði um hálfa prósentu, úr 46,0% í
46,5%. Í fyrra gátum við lækkað hreinar skuldir um 15,2 m€ og
eiginfjárhlutfallið hækkaði þá um rúml. 5 prósentur. Ég læt nú lokið
frásögn minni af afkomunni á árinu og fjárhagsskipun í árslok og ætla
nú að beina athyglinni að tilhögun starfseminnar á árinu.
Starfsemin er í nokkuð föstum skorðum. Við greinum gjarnan á
milli tveggja sviða; annars vegar er svið botnfisks, hins vegar
uppsjávarfisks. Með tilkomu makrílsins má segja, að skilin séu ekki
jafnglögg og áður. Nokkur undanfarin ár hefur skipakosturinn, sem
sinnir botnfiskveiðum, verið óbreyttur, 5 sömu frystitogararnir og 3

ísfisktogarar. Þær tegundir botnfisks, sem eru hlutfallslega
mikilvægastar fyrir okkur, eru karfi, ufsi og þorskur. Í karfa erum við
með um 32% hlutdeild innan landhelgi og 30,5% úthafinu; í ufsa erum
við með 17,6% hlutdeild og í þorski 5,0%. Í vinnslustöðvum okkar í
landi, hér í þessu húsi og á Akranesi, eru unnar einungis þessar þrjár
tegundir. Annar afli ísfisktogaranna fer á innlendan fiskmarkað. Það
hefur bitnað nokkuð harkalega á okkur, að á nokkrum undanförnum
árum hafa veiðiheimildir í karfa og ufsa verið skertar verulega. Frá
fiskveiðiárinu 2007/08 til yfirstandandi fiskveiðiárs, þ.e. á þrem árum,
hefur leyfilegur heildarafli á karfa innan landhelgi verið skertur úr
57.000 tonnum í 40.000 tonn, þ.e.a.s. um 30%, ufsaafli úr 75.000 tn. í
50.000, þ.e. um þriðjung, og er að mati okkar manna full ástæða til
þess niðurskurðar. Ýsukvótinn var á sama tíma minnkaður um 50%.
Það bitnaði á okkur sérstaklega með því að hluti af ýsukvóta okkar
hafði verið látinn af hendi í skiptum fyrir ufsakvóta. Þorskkvótinn, sem
er helsta lífsviðurværi svo margra annarra útgerða, hækkaði hins
vegar um 23%, úr 130.000 tn í 160.000 tonn. Þrátt fyrir
kvótaskerðinguna tókst okkar mönnum á síðasta ári að fullnýta
veiðigetuna. Skipsstjórnarmenn okkar brugðust við kvótaskerðingunni
með því leggja sig eftir fisktegundum, sem hafa verið utan kvóta. Bar
þar hæst gulllax, en af þeirri tegund veiddu frystitogararnir um 4.600
tonn á síðasta fiskveiðiári. Þá skapaði það verkefni fyrir togarana
okkar, að sjávarútvegsráðherra gaf í fyrra öðrum skipum en
uppsjávarveiðiskipum kost á að veiða makríl, með stuttum fyrirvara
og eftir þröngum reglum. Ísfisktogararnir náðu að veiða samtals 900
tn. og frystitogararnir um 2100 tn. Mikilsverð reynsla fékkst bæði við
veiðarnar og vinnslu um borð í frystiskipunum. Allir togararnir tóku
þátt í veiðunum og skiptust á um nota tvö sérhönnuð flottroll.
Aflaverðmætið fob nam 332 mkr og vantaði 82 mkr uppá að það
stæði undir útlögðum rekstrarkostnaði, öðrum en sameiginlegum.
Meðtalin eru öll útlát vegna veiðarfæra að fjárhæð 97 mkr, en þau er
vissulega ætlunin að nýta á komandi vertíð, sem ég vík nánar að hér
á eftir.
Það er óhætt að segja, að í fyrra hafi tekist að fullnýta togarana
okkar til veiða, þegar þeir voru ekki í höfn í eðlilegu viðhaldi og
endurbótum. Sömuleiðis virðist mér, að mjög góður árangur hafi
náðst í að halda uppi samfelldri vinnslu í botnfiskvinnslunni í landi. Í
upphafi síðasta árs var hér í Norðurgarði tekin í notkun ný
aðalvinnslulína fyrir ufsa og hefur hún reynst mjög vel. Og undir lok
ársins var tekin ákvörðun um kaup á búnaði til að fjarlægja bein úr

karfaflökum, sem gefur færi á nýjum möguleikum í markaðssetningu
á karfaafurðum.
Það hefur löngum blasað við, að við vinnslu á fiski í flök eða bita
verður mikið efni afgangs, þar á meðal haus og hryggur, sem getur
verið farið með sem úrgang, sem best sé að ráðstafa til framleiðslu á
mjöli og lýsi. Aðstaðan á vinnslustað ræður því, hvaða kostir séu í
boði. Í þrengslunum, sem geta verið um borð í frystitogara, eiga menn
e.t.v. ekki annars úrkosti en að fleygja úrganginum fyrir borð.
Það er sérstakt fagnaðarefni, að á síðasta ári virðist hafa orðið
vakning til vitundar um verðmæti þessara afganga. Má vel vera, að
tvær skýrslur Matíss í fyrravor um “Bætta nýtingu sjávarafla” hafi þar
haft einhver áhrif. – Í nýlegri greinargerð markaðsdeildar okkar um
verkefni á yfirstandandi ári segir á einum stað svo: “Höfrungur (þ.e.
einn af frystitogurum okkar) hefur um nokkurt skeið hirt og fryst
þorskhausa. Í upphafi var verðið $0.35 fob en á skömmum tíma hefur
það hækkað í $1.00.” Þessir hausar voru seldir inná Nígeríu. Og í
frásögn af markaðsfundi sjófrystingar 19. þessa mánaðar segir að
það sem af er þessu ári sé samtals búið að selja 577 tonn af
karfahausum, fyrir 51 milljón króna. Þar af séu sjófrystir hausar 56
tonn að verðmæti 5,4 milljónir kr. Meðalverð á heildina er 88 kr/kg.
Þegar fyrst spurðist hingað um svona verð á karfahausum, skyldu
þeir notaðir sem beita í humargildrur við veiðar úti fyrir strönd
Kanada. Við höfðum áður selt karfahausa sem til féllu í landvinnslu,
fyrirtæki, sem hakkaði þá í fóður til loðdýraræktar. - Hvað varðar
karfa, sem tekinn er til vinnslu hér í Norðurgarði er af miklu að taka.
Það voru rúm 9.000 tonn hvort áranna 2009 og ’10, og í ár rúm 7.230
tn. samkvæmt fyrirliggjandi rekstraráætlun. Mér sýnist, að af
innvegnum karfa fari aðeins tæplega 33% í seld flök og svo mikið
sem 40% sé afskorinn haus með viðhengi. Í þessu sambandi get ég
ekki stillt mig um að segja, að mér hefur verið þyrnir í augum, hversu
litla framlegð karfavinnslan hér hefur gefið undanfarið ár (EBITDA =
0,88%, en fyrir ufsa 15,74%), jafnframt því sem hráefnisverð, þ.e.
verð til eigin fiskiskipa, hefur rokið upp. Það verð sýnist mér aftur hafa
verið byggt á ósanngjarnri túlkun á samningi milli LÍÚ og SSÍ
(Sjómannasambands Íslands), þar sem við gjöldum þess, að
meðalstærð þess karfa (aðallega eigin afla), sem tekinn er til vinnslu,
er mun smærri en meðalstærð þess karfa, sem viðskipti hafa orðið
með á fiskmarkaði, en þetta mál ætla ég ekki að gera hér frekar að
umtalsefni. Með þeirri breytingu, sem er að verða á ráðstöfun
karfahausa, á sér stað kærkomin hækkun á virði afurða úr hverju kg.

hráefnis, enda megi þá líka vænta þess, að kílóverð smárra hausa sé
ekki mikið lægra en stórra hausa.
Þá víkur sögunni að uppsjávarfiskinum. Á því sviði hefur
undanfarin ár verið aðallega um að ræða 5 tegundir: Síld, sem heldur
sig við Ísland allt árið um kring, loðnu, kolmunna, norsk-íslenska síld
og makríl. Veiðin á árinu (2010) hófst á smárri, en snarpri loðnuvertíð.
Kvótaúthlutunin var svo lítil, aðeins um 20.500 tn. til okkar, að allt
kapp hlaut að vera lagt á nýta loðnuna til framleiðslu á hrognum. Það
tókst ágætlega, en vonbrigðum olli, að ný tækni við þurrkun hrogna,
sem HB Grandi hafði frumkvæði að því að þróa, dugði ekki til að
mæta óskum kröfuhörðustu kaupendanna í Japan. Vinnslan fór að
mestu fram á Akranesi, en að hluta á Vopnafirði, þótt nýja
fiskimjölsverksmiðjan væri ekki alveg fullgerð. Svo tók við stutt
kolmunnavertíð með veiði rúmlega 18.000 tonna kvóta og eins og
endranær fór allur sá fiskur til bræðslu. – Fiskimjölsverksmiðan á
Vopnafirði hefur vakið talsverða athygli. Hún er um margt einstæð.
Þar er rafmagn notað til að knýja loftþurrkara og rafskautaketill
notaður til að framleiða gufu í stað olíuketils, hvort tveggja til að auka
gæði afurðanna og draga úr mengun. Sömuleiðis er dregið úr
mengun með nýjung í gerð loftræstikerfis. Verksmiðjan annar 800 tn.
af hráefni á sólarhring, en rými er í húsinu fyrir viðbótarþurrkara,
samskonar öðrum þeirra, sem fyrir eru. Verksmiðjan er talin hafa
kostað um 1520 mkr, sem má ætla að svari til um helming þess, sem
varið var samanlagt til fjárfestingar í rekstrarfjármunum á árunum
2009 og ’10.
Á fyrri hluta ársins (2010), í aðdraganda væntanlegrar göngu
makríls og norsk-íslenskrar sílda inn á íslenskt hafsvæði var unnið af
krafti að framkvæmd sérstakrar áætlunar um aukningu á flokkunar og
frystigetu á Vopnafirði. Fram til þessa hafði viðbúnaðurinn í
uppsjávarfrystihúsinu á Vopnafirði verið miðaður við frystingu á loðnu
og íslenskri sumargotssíld. Litið var á vinnslu norsk-íslenskrar síldar
sem viðbótarmöguleika vor og haust. Þá gerði vinnslulínan, og
flokkun og flutningsleiðir, ráð fyrir, að einungis yrði unnið með eina
tegund í einu. Þar til fyrir örfáum árum fóru veiðar norsk-íslenskrar
síldar að mestu fram utan landhelginnar og að hluta á
Svalbarðasvæðinu. Það tíðkaðist, að þessari síld væri landað í
Noregi til frystingar. Síðan hefur veiðisvæði síldarinnar verið að
færast nær Íslandi og sumarið 2009 veiddist hún að mestu innan
íslenskrar fiskveiðilögsögu. – Þá er makríll farinn að venja komur
sínar á Íslandsmið í miklum mæli. Fram að síðasta ári var látið ógert

að úthluta á einstök skip eða útgerðir þeim veiðiheimildunum, sem
íslensk stjórnvöld tóku sér, og útgerðirnar kepptust um að komast yfir
að veiða sem mest magn, til þess svo að vinna aflan í lýsi og mjöl. Á
þessu fyrirkomulagi varð í tæka tíð í fyrra sú breyting, að 112.000 tn,
meginhluta leyfilegs heildarafla, var skipt á milli uppsjávarveiðiskipa á
grundvelli veiðireynslu undanfarinna ára. Þá blöstu við tækifæri til að
nýta betur afla makríls og norsk-íslenskrar síldar. Í fyrravor var bætt
við 2 alsjálfvirkum flökunarvélum og á vélunum, sem fyrir voru, komið
fyrir búnaði til slógdráttar. Þá voru gerðar umfangsmiklar breytingar á
flokkunar- og færibandakerfi til þess að aðgreina fisk eftir tegund og
stærð þannig að unnt yrði að vinna samtímis afla, sem er blanda af
síld og makríl eins og aflinn getur oft verið. – Til þessara
framkvæmda mun hafa verið varið um 1,02 m€. - Ég held að fullyrða
megi, að á árinu hafi okkar fólki tekist afbragðsvel við bæði vinnslu
og markaðssetningu makríls og norsk-íslenskrar síldar, en
markað setning makríls kom inn sem alveg nýtt og ögrandi verkefni. Af
makríl voru á síðasta ári fryst um 4.900 tn af rúml. 15 þús. tn afla, en
ekkert fryst árið áður. Framleidd voru tæp 12.700 tonn af frystri síld
og síldarafurðum, en árið á undan aðeins 5.800 tn, þegar þó var úr að
spila miklu meiri afla. Eitthvert lítilræði gæti verið í þessum tölum af
íslenskri síld, en sú tegund var í veikindafríi þriðja árið í röð og illa
fallin til vinnslu til manneldis. Á síðasta ári gaf sú síld okkur aðeins
4.600 tn í veiði á meðan skip okkar veiddu rúm 28 þús. tn af norskíslensku
síldinni. Þessi orð kunna að hljóma sem lofsöngur um
vinnslu til hráefnis beint til manneldis. Það eru að sjálfsögðu einungis
arðsemisjónarmið, sem ættu að ráða því, að vinnsla til manneldis sé
einhverju sinni tekin framyfir vinnslu hráefnis í mjöl og lýsi.
Um haustið þegar búið var að veiða makrílkvótann og makríllinn
horfinn af Íslandsmiðum þótti ljóst, að stærsti makríllinn, þ.e. stærri
600 gr., hafði ekki nýst sem skyldi; þetta var stærðin, sem gæti gefið
langhæst kílóverð, ef réttilega væri staðið að verki. Það væri aftur
með því að fiskurinn væri frystur heill, þ.e. með haus og átulitlum
innyflum, með sérstakri aðferð, þ.e. með svokölluðum blástursfrysti,
sem við höfðum ekki yfir að ráða. Á Vopnafirði hefur eingöngu verið
notast við plötufrysta. Lagt var mat á, hversu stór hluti makrílsins
uppfyllti stærðarskilyrði samkvæmt reynslu. Fyrir lá að til ráðstöfunar
yrði húsnæði, sem ætlað var til þurrkunar á loðnuhrognum, en hún fer
fram á aðeins örfáum vikum í febrúar/mars. Að undanskildum sjálfum
klefanum, þar sem frystingin fer fram, er tækjabúnaðurinn, sem
notaður er til meðhöndlunar á makrílnum, frítt standandi og

auðfæranlegur. Húsnæðið gat ekki verið betur staðsett. Það er ekki
að orðlengja, að ákveðið var í byrjun árs að fara í þessa fjárfestingu,
sem áætlað var að kostaði rúmlega 90 mkr. Loks er að geta einnar
fjárfestingar, sem ákveðin var nú í ársbyrjun, sem er að breyta um
kælikerfi í Faxa. Í stað kælingar með krapís á að koma svokölluð
RSW, sjókæling, sem þykir mun öflugri, en var á sínum tíma miklu
dýrari í uppsetningu heldur en kæling með krapís. Bæði Ingunn og
Lundey eru með RSW-kerfi. Ísetning nýja búnaðarins í Faxa fer fram
hér í Reykjavíkurhöfn og á að vera lokið í tæka tíð fyrir upphaf næstu
vertíðar makríls og ní-síldar. Þessi aðgerð mun kosta um 1,3 m€, nú
jafngildi rúmlega 213 mkr og er stærsta einstaka fjárfestingin, sem
ráðgerð er á þessu ári. – Ég vil skjóta því hér inn, að við mat á
hagkvæmni þeirra fjárfestingarkosta, sem starfsmenn koma auga á,
höfum við leyft okkur að líta alveg framhjá þeirri óvissu, sem er um
framhald þess fiskveiðistjórnkerfis, sem við höfum búið við.
Ég ætla svo að fara nokkrum orðum um viðhorf til rekstrarins á
yfirstandandi ári og held þá áfram þar sem frá var horfið með
uppsjávarfiskhlutann. Árið hófst með loðnuvertíð, sem lauk svo um
miðjan mars. Við fengum í nokkrum áföngum úthlutað samtals 61.000
tn til veiða af samtals 390.000 tonna heildarúthlutun. Okkar fólki tókst
forkunnarvel að nýta þessa vertíð, enda aðstæður á Akranesi og
Vopnafirði eins og best verður á kosið. Áhersla var lögð á að ná sem
mestu af hrognum og voru framleidd 3.100 tn af hrognum á ýmsu
þroskaskeiði og úr loðnuhratinu mikið af dýrmætu mjöli og lýsi. Frá
lokum loðnuvertíðar hafa uppsjávarfiskiskipin legið bundin við
bryggju. Í ár verður ekkert skip sent út til veiða á kolmunna. Kvótinn
eða aflamarkið í ár, að frádregnum umframafla í fyrra, er hverfandi
lítið, aðeins 590 tonn, sem vonast er til að dugi sem meðafli við veiðar
á öðrum tegundum í sumar. Í fyrra fengum við úthlutað 18.300 tn,
sem skipin höfðu ekki mikið fyrir að veiða. Það er eins og makríll hafi
komið í stað kolmunnans. Eftir um einn mánuð má svo búast við, að
hefjist veiðar á makríl og ní-síld. Aflamark okkar í síld er um 20.700
tn, talsvert minna en í fyrra (1/3 minna), en fastlega er þess vænst, að
makrílkvóti uppsjávarfiskiskipanna verði hinn sami og í fyrra, þ.e. um
15.500 tn. Við ættum að vera vel undir það búin að gera mikið
verðmæti úr væntanlegum afla. – Um framhaldið er svo það að segja,
að allt er enn í óvissu um, hvernig ástand íslensku síldarinnar verður,
en af loðnunni er það loks að frétta, að mörg ár eru síðan spáð hefur
verið jafnsterkri loðnugöngu að landinu eins og í vetur, og hugsanlegt
þá, að veiðar byrji fyrir áramót.

Ég vík nú sem snöggvast að úthaldi togaraflota okkar. Á þeim
skipum öllum eru afar fisknir og kappsfullir stjórnendur. Vandi
stjórnenda í landi er svo að skaffa skipunum nægar veiðiheimildir.
Samkvæmt rekstraráætlun skortir nokkuð á, að það muni takast til
fulls og það sem af er árinu hefur orðið að skammta veiðidaga. Þess
vegna var því fagnað, þegar ráðherra sjávarútvegsmála ákvað fyrir
nokkrum vikum, að togurum og þó sérstaklega vinnsluskipum skyldi
ætlað að veiða miklu meira magn af makríl en í fyrra. Ekki er enn
ljóst, hversu mikið magn kemur í hlut HB Granda, en það verður mun
meira en var í fyrra og það sem gert var ráð fyrir í áætlun. Ákveðið
var af þessu tilefni að gera skipunum sitthvað til góða m.a. til að bæta
meðferð aflans og auka frystigetu sumra þeirra með lóðréttum
frystitækjum. Fjárfesting í verkefninu getur orðið á bilinu 442 -990 þ€.
Makrílúthaldið gefur fyrirheit um góða arðsemi. Þó var gengið út frá
þeirri forsendu, að þessar veiðiheimildir mundu verða endurnýjaðar
aðeins tvö ár í viðbót, jafnframt því sem þær yrðu skornar niður um
helming, í ljósi þess að senn hlýtur að koma að því, að samkomulag
takist um skiptingu heildarveiðinnar meðal allra þjóðanna, sem hlut
eiga að máli. - Mjög áhugavert er, að uppsetningu lóðréttu
frystitækjanna í frystitogarana fylgir sá ávinningur, að þar er kominn
rétti búnaðurinn til að frysta fiskhausa, jafnt karfahausa sem
þorskhausa, og eru uppi áform um að nýta búnaðinn til þeirra
verkefna við fyrstu hentugleika.
Góðir fundarmenn. Það fer að nálgast lok þess tíma, sem ég hef til
ráðstöfunar. Þau verkefni, sem við er að fást og sem þarf að gefa
skýrslu um hér í HB Granda, eru ekki alveg hin sömu og í flestum
öðrum stærri sjávarútvegsfyrirtækjum á landinu. Við erum með
veiðiheimildum okkar ekki fjarri 12% kvótaþakinu, ekki fjær en svo, að
með stórri loðnuvertíð gæti félagið rekist upp undir þakið. Hér getur
ekki verið á dagskrá, að aukið sé við kvótabundnar veiðiheimildir,
þegar á heildina er litið, og ekki er vitað annað en að eigendur séu
sáttir við gildandi reglur. Skipting veiðiheimilda á megintegundir fer
vel saman við óskir um, að félagið sé áhugaverður kostur á
hlutabréfamarkaði. Fyrirtæki okkar er í þeirri stöðu, að við hljótum að
leggja áherslu á að nýta sem best allt það hráefni, sem til fellur. Og
sömuleiðis, með sérstaka markaðsdeild unga að árum, er vonandi, að
með aðgerðum á sviði markaðssetningar verði áfram unnið
kappsamlega að því að auka verðmætasköpun.

Ég er loks kominn að því að kynna tillögur stjórnar á fundinum.
Lagt er til, að greiddur verði arður, sem svarar til 20% af nafnvirði
hlutafjár. Sú arðgreiðsla þýðir, að við mundum standa í sömu sporum
og fyrir ári að því er varðar hlutfallið á milli uppsafnaðs núvirts arðs og
uppsafnaðs núvirts hagnaðar frá árinu 1989 (29,7%). - Af mótteknum
arði þurfa allir einstaklingar að greiða fjármagnstekjuskatt og sumir
þar að auki hinn svonefnda auðlegðarskatt. Fyrir þá síðarnefndu
hlýtur að vera gagnlegt að vita, hvort arðurinn dugi fyrir
skattgreiðslunum. Ég ætla að draga upp dæmi, sem leiðir okkur í
sannleikann um það (sjá glæru):
M á hlutabréf í HB Granda, 1.000 kr að nafnverði,
keypt eftir aðalfund félagsins vor 2010
Gengi hlutabréfs í lok árs 2010: 9,5
Arður ákveðinn á aðalfundi 2011: 20% af nafnverði
Fjármagnstekjuskattur: 20%
Auðlegðarskattur: 1,5% af markaðsverði hlutabréfs
Arður 200,oo kr vor 2011
Fjármagnstekjuskattur - 40,oo “ vor 2011
Auðlegðarskattur 1,5% 9.500 kr -142,5o “
Afgangur 17,5o kr = 8,75%
========
Af 200 kr arði fara 91,25% til ríkisins, 8,75% verða eftir hjá eiganda
bréfsins. Af auðlegðarskattinum skal greiða 1,5% af nafnverði
hlutabréfsins, þ.e. 15 kr, árið 2011 og afganginn 127,5o kr. árið 2012.
Ætla má, að sumum hluthöfum þyki ekki veita af þeim arði, sem
meiningin er að bjóða. Taka verður fram, að við álagningu á
yfirstandandi ári á þann hluta stofns auðlindaskatts, sem er umfram
nafnverð, er miðað við gengið 5,2 á hlutabréfum í HB Granda, en fyrir
sorglega slysni hefur það verið gengið í síðustu viðskiptum ársins
2009. Vonandi er þess ekki alltof langt að bíða, að markaður með
bréf HB Granda komist í eðlilegt horf, þannig að enginn þurfi að sæta
slíkum afarkostum.
Á fundinum verður svo lögð fram tillaga um heimild félagsins til
kaupa á eigin hlutum, svipuð tillaga og samþykkt hefur verið árlega
undanfarin ár. – Þá er gerð tillaga um breytingu á samþykktum
félagsins um skilyrði þess, að hluthafar geti krafist þess, að boðað sé

til hluthafafundar. Þetta er gert til samræmis við breytingu á lögum um
hlutafélög. - Engin ástæða hefur þótt vera til að gera breytingu á
starfskjarastefnu félagsins, sem gerð er grein fyrir í ársskýrslu, og
þess vegna er ekki um að ræða neina tillögu um það efni.
Góðir fundarmenn. Skýrslu minn er þá lokið. Fyrir hönd stjórnar
félagsins færi ég öllum starfsmönnum félagsins kærar þakkir fyrir vel
unnin störf.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir