FréttirSkrá á póstlista

28.03.2011

9.000 tonn af loðnuafurðum fryst á Akranesi og Vopnafirði

Á nýliðinni loðnuvertíð tóku fiskmjölsverksmiðjur og fiskiðjuver HB Granda á Akranesi og Vopnafirði alls á móti um 61.000 tonnum af loðnu til vinnslu. Skiptist þetta magn nokkurn veginn til helminga á milli Akraness og Vopnafjarðar. Þetta eru mikil umskipti frá vertíðinni í fyrra en þá bárust tæplega 21.600 tonn af loðnu til þessara tveggja staða.

Að sögn Ingimundar Ingimundarsonar, rekstrarstjóra uppsjávarveiðiskipa HB Granda, voru alls fryst um 9.000 tonn af loðnuafurðum á vertíðinni. Þar af voru um 2.600 tonn af loðnuhrognum en af því magni voru um 2.000 tonn fryst á Akranesi.

Ef litið er á afla einstakra skipa þá voru Faxi RE, Ingunn AK og Lundey NS öll með svipað aflamagn en heildarafli þessara skipa var 54.400 tonn á vertíðinni og aflaverðmætið 1.688 milljónir króna. Víkingur AK var gerður út í þrjár vikur á vertíðinni og var afli skipsins 6.600 tonn að verðmæti 222 milljónir króna. Heildaraflaverðmæti skipanna á loðnuvertíðinni var því um 1,9 milljarðar króna.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir