FréttirSkrá á póstlista

22.03.2011

Afkoma HB Granda hf. árið 2010

Rekstur ársins 2010

Rekstrartekjur HB Granda hf. árið 2010 námu 144,8 m€, samanborið við 123,7 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 41,2 m€ eða 28,5% af rekstrartekjum, en var 32,0 m€ eða 25,9% árið áður. Hærra EBITDA hlutfall skýrist m.a. af afkomu loðnuvertíðar, en engum aflaheimildum var úthlutað árið áður. Hins vegar varð minni veiði á kolmunna og norsk-íslenskri síld. Þá hækkuðu flest afurðaverð í evrum, að hluta til vegna veikingar evru gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Olíuverð hækkaði einnig verulega á milli ára. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 13,6 m€, en um 3,2 m€ á sama tíma árið áður. Meginskýringin liggur í gengistapi upp á 8,2 m€ vegna veikingar evru gagnvart öðrum gjaldmiðlum, sem félagið skuldar í. Árið 2009 varð gengishagnaður 1,3 m€. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 2,5 m€, en voru neikvæð um 2,4 m€ árið áður. Þessi áhrif má að meginhluta rekja til síleska fyrirtækisins Deris. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 18,8 m€. Tekjuskattur að fjárhæð 11,0 m€ er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum. Þar af hækkar tekjuskattsskuldbinding um 5,5 m€ vegna veikingar evru gagnvart krónu, auk þess sem hækkun tekjuskattshlutfalls úr 18% í 20% hækkar tekjuskattsskuldbindingu um 1,6 m€. Hagnaður ársins varð því 7,8 m€.

Hjá félaginu unnu að meðaltali 670 starfsmenn á árinu samanborið við 622 árið áður. Laun og launatengd gjöld námu samtals 48,2 m€ (7,8 milljarðar króna), en 36,7 m€ (6,3 milljarðar króna) árið 2009).


Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 303,7 m€ í árslok 2010. Þar af voru fastafjármunir 254,0 m€ og veltufjármunir 49,7 m€. Eigið fé nam 141,3 m€ og var eiginfjárhlutfall því 46,5%, en 46,0% í lok árs 2009. Heildarskuldir félagsins voru í árslok 162,4 m€.


Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 24,0 m€ árið 2010, en 33,2 m€ árið áður. Fjárfestingar námu 10,3 m€. Fjármögnunarhreyfingar námu 14,5 m€ og voru nettó afborganir langtímalána þar af 13,4 m€. Handbært fé lækkaði því um 0,8 m€ og var í lok árs 11,2 m€.


Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2010 (1 evra = 161,9 kr) verða tekjur 23,4 milljarðar króna, EBITDA 6,7 milljarðar og hagnaður 1,3 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2010 (1 evra = 153,8 kr) verða eignir samtals 46,7 milljarðar króna, skuldir 25,0 milljarðar og eigið fé 21,7 milljarðar.


Skipastóll og afli

Skipastóll HB Granda hf. var óbreyttur.

Árið 2010 var afli skipa félagsins 52 þúsund tonn af botnfiski og 96 þúsund tonn af uppsjávarfiski.


Aðalfundur

Aðalfundur HB Granda verður haldinn föstudaginn 29. apríl 2011 í matsal félagsins við Norðurgarð í Reykjavík og hefst klukkan 17:00. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður að fjárhæð 340 mkr, sem samsvarar 1,6% af eigin fé.


Fjárhagsdagatal

Aðalfundur 29. apríl 2011

Birting ársskýrslu 29. apríl 2011

Arðgreiðsludagur 13. maí 2011

Hálfsársuppgjör 22.-26. ágúst 2011

Ársuppgjör 2011 19.-23. mars 2012


Nýjustu fréttir

Allar fréttir