FréttirSkrá á póstlista

15.03.2011

Loðnuhrognavinnslu lauk um helgina

Loðnuvinnslu á vegum HB Granda lauk sl. laugardagskvöld á Akranesi og Vopnafirði en þá fóru síðustu loðnuhrognin í pökkun og frystingu. Nú er unnið að frágangi og þrifum á báðum stöðum og má búast við að því verki ljúki ekki að fullu fyrr en um eða upp úr næstu mánaðamótum.

Gunnar Hermannsson, sem hafði yfirumsjón með loðnuhrognavinnslunni á Akranesi, segist vera ánægður með hrognavertíðina. Vinnslan hafi gengið ljómandi vel og góður gangur hafi verið í veiðunum á meðan vertíðinni stóð.

,,Við erum núna í frágangi og þrifum og það er mun meira verk en margir gera sér grein fyrir. Það þarf að rífa allan vinnslubúnað í sundur, stykki fyrir stykki, þrífa og setja saman aftur. Það koma nú um 10 til 12 manns að því verki og ég geri ráð fyrir því að það muni taka góðar þrjár vikur að ganga frá vinnsluhúsnæðinu,“ segir Gunnar Hermannsson.

Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, er einnig ánægður með vertíðina. Vinnslan hafi gengið eins og í sögu en rysjótt tíðarfar hafi orðið þess valdandi að minna af loðnu barst til vinnslu á Vopnafirði á hrognavertíðinni en annars hefði orðið.

,,Akurnesingarnir réðu vel við vinnsluna á þeim hraða sem veðrið skammtaði skipunum til veiða og því var minni ástæða en ella til að flytja hráefni til vinnslu hjá okkur,“ segir Magnús en líkt og á Skaganum eru starfsmenn HB Granda á Vopnafirði nú að ganga frá eftir loðnuvertíðina og gera búnaðinn kláran fyrir síldar- og makrílvertíðina sem hefst væntanlega af krafti eftir sjómannadaginn. Framundan er hins vegar vinnsla á afskurði af frystitogurum hjá fiskiðjuverinu á Vopnafirði og sagðist Magnús reikna með því að hún gæti hafist fljótlega.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir