FréttirSkrá á póstlista

10.03.2011

Lokið við að veiða loðnukvóta skipa HB Granda

Úthlutuðum loðnukvóta skipa HB Granda á þessari vertíð var náð fyrr í dag og tók áhöfnin á Ingunni AK síðasta kastið. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs félagsins, er loðnuveiðunum þar með lokið á vertíðinni að öllu óbreyttu. Aðeins svokölluð vestanganga loðnu gæti orðið til að aukið yrði við kvótann.

Heildarkvóti skipa HB Granda á vertíðinni var rúmlega 61 þúsund tonn og þar af eru um 1.900 tonn sem bætt var við kvótann í byrjun vikunnar. Ástæðan er sú að grænlensk skip náðu ekki að veiða aflaheimildir sínar á vertíðinni og því var hægt að bæta við rúmlega 10.200 tonnum við kvóta íslensku skipanna. Sá viðbótarkvóti mun síðan dragast frá úthlutuðu aflamarki Íslendinga á næstu vertíð. Kvóti HB Granda nú er sá mesti síðan á vertíðinni 2005 en þá nam kvótinn um 122 þúsund tonnum. Minnstur var kvótinn á árinu 2009 en þá fengu skipin aðeins leyfi til að veiða um 3.000 tonn af loðnu.

Að sögn Vilhjálms hafa hvort tveggja veiðar og vinnsla gengið mjög vel þrátt fyrir rysjótt tíðarfar. Hrognavinnsla og -frysting stendur enn yfir á Akranesi og Vopnafirði. Lokið var við að vinna úr um 600 tonna afla Víkings AK á Akranesi í morgun og þar er nú verið að vinna úr um 1.000 tonna afla Faxa RE. Lundey NS er á leið til Vopnafjarðar með um 1.150 tonna afla en von er á skipinu til hafnar upp úr hádegi á morgun. Ingunn er enn á miðunum en von er á skipinu til Akraness í kvöld eða nótt og fer aflinn til vinnslu um leið og búið verður að vinna úr afla Faxa.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir