FréttirSkrá á póstlista

28.02.2011

Góð loðnuveiði þrátt fyrir erfitt sjólag

Mjög góð loðnuveiði var við Snæfellsnes í gærdag eftir að vindur gekk niður um hádegisbilið. Sjólag var þó mjög erfitt og lentu mörg skipanna í því að rífa næturnar. Meðal þeirra var Lundey NS. Að sögn Arnþórs Hjörleifssonar, skipstjóra á Lundey, var ekkert veiðiveður á laugardeginum en um leið og skipin gátu athafnað sig upp úr hádeginu í gær fengust mjög góð köst. Þung kvika var á veiðisvæðinu sunnan við Malarrif og sjólag með allra erfiðasta móti.

,,Menn lentu í því að missa næturnar niður og rífa og það gerðist hjá okkur,“ segir Arnþór en Lundey er nú í höfn í Reykjavík þar sem verið er að gera við nótina. Til marks um aflabrögðin í gær má nefna að fjögur skip HB Granda fengu alls um 4.700 tonn af loðnu í gær. Eftirstöðvar loðnukvóta félagsins eru um 9.000 tonn en það svarar til þess að hvert skipanna eigi eftir um tvær veiðiferðir á vertíðinni, þ.e.a.s. ef ekki verður aukið við kvótann.

Að sögn Arnþórs er mikið af loðnu við Snæfellsnes og hann segir að það hefði verið sannkölluð mokveiði í gær ef sjólagið hefði verið betra. Loðnan var að veiðast um sjö til átta sjómílur suður af Malarrifinu. Horfur með veiðiveður eru ekki góðar því spáð er suðvestlægri átt, 15-23 m/s og éljum á Faxaflóa fram til morguns en sunnan 8-15 m/s síðdegis á morgun. Snælduvitlaust veður er nú á veiðisvæðinu að sögn Arnþórs.

Nú styttist í að loðnan, sem lengst er gengin, fari að hrygna en Arnþór sagðist reikna með því að það verði þó ekki fyrr en eftir einhverja daga. Nóg sé svo að loðnu sunnar og austar.

,,Menn hafa orðið varir við góðar lóðningar við suðurströndina og fyrir einum fjórum dögum lóðaði hjá okkur á loðnutorfu austur við Ingólfshöfða. Menn hafa ekkert skoðað þetta frekar því öll áhersla er lögð á að veiða hrognaloðnuna sem lengst er gengin,“ eftir Arnþór Hjörleifsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir