FréttirSkrá á póstlista

23.02.2011

Sauðfjárbændur hjálpa til í sjávarútvegi

Vertíðarstemmning ríkir nú á Akranesi og víðar í sjávarbyggðum landsins þar sem vinnsla á loðnuhrognum fer fram. Um 80 manns vinna á vöktum við hrognavinnsluna hjá HB Granda á Akranesi og er unnið allan sólarhringinn. Líkt og áður hafa sauðfjárbændur af Vesturlandi verið duglegir við að taka þátt í verðmætasköpuninni en margir bændur hafa skellt sér á hrognavertíðir á Skaganum um langt árabil.

Vinnsla á loðnuhrognum hófst hjá HB Granda á Akranesi sl. fimmtudag og hefur hún gengið vel að sögn Gunnars Hermannssonar, sem hefur verið í forsvari fyrir þennan þátt landvinnslunnar. Hann segir að vel hafi veiðst og ekki hafi skort hráefni til vinnslunnar. Vandinn sé sá að þótt hrognafyllingin sé orðin nægilega mikil fyrir kröfuhörðustu markaðina þá vanti nokkuð upp á að hrognin séu fullþroskuð.

,,Loðnan er óútreiknanleg og engin loðnuvertíð er eins. Hvað varðar hrognatökuna þá veit enginn hve margir dagar nýtast í því skyni á vertíðinni. Ástand loðnustofnsins, göngumynstur loðnunnar og tíðarfar ráða öllu um gang mála. Ef menn eru heppnir gæti vertíðin staðið í hátt í þrjár vikur. Í versta falli gætum við verið að tala um nokkra daga,“ segir Gunnar.

Að sögn Gunnars taka um 30 manns úr fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi þátt í hrognavinnslunni en hinir 50 starfsmennirnir koma úr ýmsum áttum og meðal þeirra er mikið af bændum sem hvort tveggja koma úr Borgarfirðinum, af Snæfellsnesi og vestan úr Dölum. Gunnar ber þessum starfsmönnum, sem og öðrum, söguna vel og segir marga hafa brugðið sér á vertíð á Skaganum um langt árabil.

Næg afkastageta til staðar

Þegar tíðindamaður heimasíðunnar heimsótti Gunnar og hans fólk á Akranesi var verið að landa afla úr Ingunni AK en Lundey NS og Víkingur AK voru þá á miðunum og var von á þeim um kvöldið til hafnar. Faxi RE var þá hins vegar á Vopnafirði þar sem hrognafrysting fer einnig fram á vegum HB Granda. Að sögn Gunnars bíða menn nú eftir því að þroski loðnuhrognanna verði nægilegur til þess að hægt verði að hefja frystingu á hrognum af krafti fyrir Japansmarkaðinn. Ef allt gengur að óskum er vinnslugetan fyrir hendi. Hámarksafköst í vinnslunni á Akranesi eru um 170 til 180 tonn af hrognum á sólarhring en það samsvarar því að verið sé að vinna hrogn úr um 1.500 tonna loðnufarmi. Það er hins vegar frystigetan sem ræður ferðinni en hægt er að frysta um 100 tonn af hrognum á sólarhring á Akranesi. Þegar hrognavertíðin er í hámarki og vel veiðist eru fersk loðnuhrogn send landleiðina frá Akranesi, sem er í næsta nágrenni við loðnumiðin, til Vopnafjarðar til frystingar og pökkunar auk þess sem skip HB Granda sigla þangað með afla til hrognatöku.

Íslenskt hugvit

Því má bæta við þessa umfjöllun að það er upplifun að kynna sér þá starfsemi sem felst í loðnuhrognavinnslunni. Gríðarlegar fjárfestingar eru í búnaði og tækjum sem hugsanlega nýtast í eina til þrjár vikur á ári. Að sögn Gunnars Hermannssonar samanstendur þessi búnaður að 90% til af íslensku hugviti og smíði. Það, sem kemur að utan, eru aðallega dælur, skilvindur og búnaður tengdur færiböndum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir