FréttirSkrá á póstlista

21.02.2011

Fjögur skip HB Granda á loðnuveiðum

Ágæt loðnuveiði hefur verið frá því að skipin fóru að nýju til veiða eftir stutt hlé sem varð á úthaldinu vegna verkfallsboðunar. Mikill hraði hefur verið á loðnugöngunni og er sú loðna, sem lengst er gengin, nú að ganga norður fyrir Snæfellsnes. Veiðisvæðið var í morgun um sex til sjö sjómílur vestur af Öndverðarnesi og þykir mönnum loðnan ganga óvenju djúpt fyrir Snæfellsnes að þessu sinni.

Nú eru fjögur skip HB Granda á loðnuveiðum en Víkingur AK var sendur til veiða sl. föstudagskvöld og var landað fullfermi úr skipinu á Vopnafirði í morgun, eða um 1.400 tonnum. Lundey NS hefur farið í þrjár veiðiferðir frá því um miðja síðustu viku og var verið að ljúka löndun úr skipinu á Akranesi nú um miðjan dag. Aflinn í þessum veiðiferðum er samtals um 3.000 tonn. Faxi RE er nú á leiðinni til Vopnafjarðar með um 1.150 tonna afla en aflinn í tveimur veiðiferðum þar á undan var um 2.000 tonn. Ingunn AK kom til Vopnafjarðar fyrir helgina með um 1.500 tonna afla og er löndun nú að hefjast á um 1.300 tonna afla skipsins á Akranesi.

Samkvæmt upplýsingum frá uppsjávardeild HB Granda eru nú óveidd um 20 þúsund tonn af um 59 þúsund tonna loðnukvóta félagsins á þessari vertíð.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir