FréttirSkrá á póstlista

16.02.2011

Loðnuhrognafrysting að hefjast

Frysting á loðnuhrognum hefst á vegum HB Granda á Akranesi á morgun. Lundey NS hefur verið að loðnuveiðum við Reykjanes og kom skipið til Akraness fyrr í dag með um 1.100 tonna loðnufarm. Stutt er á miðin frá Akranesi og tók siglingin þangað aðeins um tvo tíma.

Frá því var greint fyrr í dag að niðurstöður febrúarsleiðangurs hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar gefi tilefni til þess að auka við loðnukvótann á vertíðinni. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar til sjávarútvegsráðherra er að kvótinn verði aukinn um 65 þúsund tonn eða úr 325 þúsund tonnum í 390 þúsund. Veiðistofninn er samkvæmt þessum nýjustu mælingum metinn tæplega 790 þúsund tonn í gildandi aflareglu er miðað við að 400 þúsund tonn verði skilin eftir til hrygningar.
Fari ráðherra að ráði Hafrannsóknastofnunar mun loðnukvóti skipa HB Granda aukast um rúmlega 10 þúsund tonn og verða alls um 57 þúsund tonn á vertíðinni. Búið er að veiða um helming þess magns en eftirstöðvar kvótans eru nú um 28 þúsund tonn.


Nýjustu fréttir

Allar fréttir