FréttirSkrá á póstlista

28.01.2011

Fyrsti heili loðnufarmurinn til Akraness í tæp þrjú ár

,,Ég held að við verðum að halda upp á þetta með því að kaupa stóra rjómatertu. Það er fullt tilefni til,“ segir Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri HB Granda á Akranesi, en tilefnið sem hann vísar til er það að í kvöld er von á Ingunni AK með fullfermi af loðnu til heimahafnar. Verður þetta í fyrsta skipti í bráðum þrjú ár sem heill loðnufarmur berst fiskmjölsverksmiðjunni á staðnum.

Guðmundur segir það vera tilhlökkunarefni að fá heila loðnu til bræðslu en á undanförnum tveimur vertíðum hefur verksmiðjan aðeins unnið úr loðnuafskurði sem fallið hefur til við hrognatöku. Að sögn Guðmundar er allt tilbúið til að taka á móti loðnu til bræðslu á Skaganum en að undanförnu hefur verksmiðjan unnið úr takmörkuðum gulldepluafla sem þangað hefur borist.

,,Bjarni Ólafsson AK og Ingunn voru hér í síðustu viku með samtals um 1.100 tonn af gulldeplu. Hoffell SU kom með 370 tonn á miðvikudagsmorgun og síðan kom Faxi RE til hafnar í fyrrinótt með um 160 tonna afla. Verið er að vinna úr þessum afla og lýkur því verki í dag.

Guðmundur segir gulldepluna, sem borist hefur til Akraness, vera mjög misgott hráefni. Nauðsynlegt sé að kæla aflann og hafa veiðiferðirnar ekki of langar til þess að fiskurinn sé sæmilega heillegur þegar honum er landað. Ef ekki sé hugað að þessu þá verði niðurbrotið í aflanum mjög mikið og þess séu dæmi að menn hafi orðið að vinna með súrefnisgrímur við löndun.

,,Hins vegar er hægt að vinna fínasta mjöl og lýsi úr gulldeplunni ef hráefnið er ferskt og gott. Mér skilst að afurðirnar hafi líkað vel og þá sérstaklega lýsið,“ segir Guðmundur Hannesson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir