FréttirSkrá á póstlista

27.01.2011

Loðnufrystingu hætt að sinni

Ákveðið hefur verið að hætta frystingu á loðnu á Vopnafirði að svo stöddu. Ástæðan er sú að mikil óvissa hefur verið á mörkuðum fyrir frysta loðnu og hefur hún farið vaxandi frekar en hitt í kjölfar þess að Rússar bjóða nú ódýra, frysta loðnu úr Barentshafi á sömu mörkuðum og íslenska loðnan er seld á.

Þetta kemur fram í máli Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, sem upplýsir einnig að nú þegar hafi tekist að selja alla loðnu sem fryst hefur verið á vertíðinni. Þar sem að gott verð fáist nú á mjöl- og lýsismörkuðum sé talið rétt að leggja áherslu á að framleiða frekar fyrir þá markaði í stað þess að safna birgðum af frystri loðnu.

Loðnuveiðar hafa gengið ágætlega að undanförnu þrátt fyrir rysjótt tíðarfar. Ingunn AK er nú á leið til Akraness með fullfermi af loðnu og er von á skipinu þangað annað kvöld. Í veiðiferðinni á undan var 1.140 tonnum af loðnu landað á Vopnafirði og þar var Lundey NS á ferðinni í gær með fullfermi, eða 1.580 tonn tonn af loðnu. Skipið er nú á loðnumiðunum og Faxi RE, sem verið hefur á gulldepluveiðum síðustu dagana, er nú á leiðinni á loðnumiðin.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir