FréttirSkrá á póstlista

24.01.2011

Loðnukvóti skipa HB Granda gæti orðið um 44 þúsund tonn

Hafrannsóknastofnun hefur lagt til við sjávarútvegsráðherra að loðnukvótinn á yfirstandandi vertíð verði aukinn úr 200 þúsund tonnum í 325 þúsund tonn. Er þetta gert í kjölfar mælinga á stærð og útbreiðslu loðnustofnsins fyrr í þessum mánuði en úrvinnslu á gögnum er nú lokið. Fari ráðherra að tillögum stofnunarinnar mun loðnukvóti skipa HB Granda verða um 44 þúsund tonn á vertíðinni.

Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun segir að hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson RE hafi dagana 6. til 22. janúar sl. verið við rannsóknir og mælingar á stærð loðnustofnsins frá Suðausturlandi, norður um og allt að sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrstu dagana tóku jafnframt fimm veiðiskip þátt því að kanna útbreiðslu loðnunnar út af Austfjörðum og Norðurlandi. Útreikningar á stærð veiðistofnsins, sem byggja á þessum mælingum, sýna að alls mældust 720 þúsund tonn af kynþroska loðnu. Áður en ofangreind mæling fór fram er áætlað að veidd hafi verið rúm 5 þúsund tonn af loðnu og því er áætluð stærð stofnsins nú, að meðtöldum þeim afla um 725 þúsund tonn. Í ljósi þess að gildandi aflaregla gerir ráð fyrir að 400 þúsund tonn séu skilin eftir til hrygningar leggur Hafrannsóknastofnunin til að leyfilegur hámarksafli á vertíðinni verði ákveðinn 325 þúsund tonn.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, má reikna með því að af 125 þúsund tonna auknum loðnukvóta komi um 100 þúsund tonn í hlut Íslendinga. Heildarkvóti skipa HB Granda gæti því orðið um 44 þúsund tonn. Til samanburðar má nefna að loðnukvóti þeirra á síðustu vertíð var um 20.500 tonn.

Nú er verið að landa um 1.100 tonnum af loðnu úr Ingunni AK á Vopnafirði og þar með er afli skipa HB Granda kominn í um 11 þúsund tonn á vertíðinni. Samkvæmt því gætu eftirstöðvar loðnukvótans verið um 33 þúsund tonn.

Tvö skipa HB Granda, Ingunn og Lundey NS, eru nú á loðnuveiðum en Faxi RE, sem kom með um 670 tonna loðnuafla til Vopnafjarðar um helgina, er farinn til gulldepluveiða í stað Ingunnar sem kom með um 500 tonn af gulldeplu til Akraness sl. fimmtudag.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir