FréttirSkrá á póstlista

18.01.2011

Lítill kraftur í gulldepluveiðum

Sex skip eru nú að gulldepluveiðum í Grindavíkurdjúpi og að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra á Ingunni AK er lítill kraftur í veiðunum. Ingunn hóf veiðarnar sl. laugardag og hefur aflinn verið frá um 100 tonnum og upp í um 200 tonn eftir daginn.

,,Það er ákaflega rólegt yfir þessu. Aflinn var um 100 tonn á laugardaginn, um 200 tonn á sunnudeginum og í gær vorum við með um 140 tonna afla,“ segir Guðlaugur en þess má geta að gulldeplan veiðist aðeins á meðan birtu nýtur. Að sögn Guðlaugs er yfirleitt kastað um kl. 8 til 9 á morgnana og trollið síðan dregið þar til að híft er síðdegis eða um kl. 17 til 18.

Auk Ingunnar eru Vestmannaeyjaskipin Huginn VE, Sighvatur Bjarnason VE og Kap VE að gulldepluveiðum í Grindavíkurdjúpi en þar eru einnig Hoffell SU og Bjarni Ólafsson AK. Veiðisvæðið er um 30 til 40 mílur frá landi.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir