FréttirSkrá á póstlista

12.01.2011

Erfitt að meta ástandið á loðnumiðunum

Nú er verið að landa loðnu úr Faxa RE á Vopnafirði en skipið kom þangað laust eftir miðnætti í nótt með um 600 tonna loðnuafla. Að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra fékkst þessi afli norður af Langanesi. Mjög slæmt veður var alla veiðiferðina og segir Albert að sjólag hafi verið þannig að það hafi verið á mörkum þess að hægt væri að stunda veiðar.

,,Það var ekki nóg með að veðrið væri slæmt, heldur lentum við í því óhappi að belgurinn slitnaði frá trollpokanum í einu holinu og það tók okkur um sólarhring að koma trollinu í samt lag,“ segir Albert en að hans sögn er mjög erfitt að meta ástandið á miðunum. ,,Þetta leit ágætlega út í byrjun veiðiferðarinnar og það var líf mjög víða og lóðningar í góðu lagi. Síðan hafa komið dagar þar sem lítið hefur orðið vart við loðnu.“
Auk Faxa RE hafa skip eins og Lundey NS. Beitir NK, Börkur NK og Vilhelm Þorsteinsson EA verið að veiðum á umræddu svæði norður af Langanesi. Að sögn Alberts hefur Aðalsteinn Jónsson SU verið að veiðum nokkru sunnar og verið þar í stærri loðnu.

,,Lundey kom á það svæði í nótt og þegar ég heyrði í skipstjóranum í morgun þá var verið að hífa um 150 til 170 tonn,“ segir Albert.

Líkt og Lundey var Faxi við loðnuleit áður en loðnuveiðar hófust að nýju um sl. helgi. Albert segir að Faxi hafi fengið úthlutað svæðinu út af Vopnafirði og Bakkafirði.

,,Við sáum eiginlega ekki neitt til loðnu á þessu svæði en það mældist hins vegar eitthvað af loðnu fyrir norðan okkur og sunnan,“ segir Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir