FréttirSkrá á póstlista

08.12.2010

Loðnufrysting hafin á Vopnafirði

Ingunn AK kom til Vopnafjarðar í nótt með um 750 tonna loðnufarm. Að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra hjá HB Granda, er verið að frysta stærstu loðnuna úr aflanum og er reiknað með að því verki ljúki seint í kvöld eða í nótt.
Loðnuvertíðin hefur farið rólega af stað enda hafa aðeins þrjú skip verið við veiðar síðustu dagana. Faxi RE er nú á leiðinni til Vopnafjarðar með um 260 tonna afla og er von á skipinu til hafnar um kl. 20 í kvöld. Albert Sveinsson skipstjóri segir að á ýmsu hafi gengið í veiðiferðinni.

,,Þetta hefur verið erfitt. Loðnan hefur staðið djúpt og verið mjög dreifð, jafnvel á nóttunni. Straumar og veður hafa einnig torveldað veiðarnar. Við höfum einnig lent í því að rífa nótina og þar af einu sinni mjög illa. Áhöfnin leysti það mál yfir nótt í brunagaddi og snjókomu,“ segir Albert en að hans sögn eru aðstæður á veiðisvæðinu á Kolbeinseyjarhryggnum með þeim hætti að mun betra væri að veiða loðnuna með flottrolli. Slíkar veiðar eru hins vegar ekki heimilaðar nema á svæði sem er austan við Langanes.

,,Það vantar ekki að það lóðar víða á loðnu en hún kemur helst ekki upp fyrir 60 faðma dýpi og oftar en ekki hefur aflinn verið lítill þótt lóðningarnar hafi gefið góð fyrirheit,“ segir Albert Sveinsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir