FréttirSkrá á póstlista

06.12.2010

Loðnuveiðar hafnar

Loðnuvertíðin er hafin en þrjú skip hafa leitað loðnu undanfarna daga norðan við land. Tvö skipa HB Granda, Ingunn AK og Faxi RE, fóru til veiða í síðustu viku en auk þeirra hefur Börkur NK verið að veiðum. Nú í morgun var Ingunn komin með um 600 tonna afla en áhöfnin á Faxa varð fyrir því óláni að nótin rifnaði illa í gær og var unnið að viðgerð á henni um borð í alla nótt.

Að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Ingunni, eru skipin nú stödd á austanverðum Kolbeinseyjarhryggnum, um 70 sjómílur norðvestur af Melrakkasléttu. Áður en þangað var haldið voru skipin í loðnuleit norður af Vestfjörðum. Vart varð við þokkalegar torfur norður af Kögri en áður en hægt var að kasta á þær lagðist rekís yfir svæðið.

,,Við héldum því austur með landinu og höfum víða orðið varir við loðnu. Vandinn er sá að loðnan stendur djúpt og gefur sig ekki til fyrr en það er orðið dimmt. Hér á Kolbeinseyjarsvæðinu eru aðstæður mjög erfiðar vegna mikilla strauma og það er erfitt að hitta á loðnutorfurnar,“ segir Guðlaugur en að hans sögn er loðnan austan við Kolbeinsey stór og falleg en loðnan þar fyrir vestan er af blandaðri stærð. Ekki er leyfilegt að veiða í flottroll vestan við Langanes og því eru skipin útbúin með djúpnótum. Mikið frost er á miðunum og Guðlaugur segir að það hafi örugglega verið erfitt fyrir skipverjana á Faxa að gera við nótina í nótt sem leið en viðgerðin tók alls um tíu tíma.

Ekki liggur fyrir hvenær Ingunn heldur til hafnar á Vopnafirði með aflann en Guðlaugur taldi ekki ólíklegt að það gæti orðið á morgun.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir