FréttirSkrá á póstlista

19.11.2010

Loðnuveiðar gætu hafist í næsta mánuði

Niðurstöður rannsókna Hafrannsóknastofnunar, sem fram fóru á tímabilinu 24. september til 8. nóvember sl., benda til þess að hrygningarstofn loðnu sé um 630 þúsund tonn. Í framhaldi af þessu hefur stofnunin lagt til að bráðabirgðaaflamark á komandi vertíð verði 200 þúsund tonn en miðað er við að hrygningarstofninn þurfi að lágmarki að vera um 400 þúsund tonn.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, fagnar þessari niðurstöðu og segir að góðar vonir séu bundnar við að hægt verði að auka frekar við kvótann eftir væntanlegar rannsóknir í byrjun næsta árs.

,, Það er léttir að þegar sé komin tillaga um byrjunarkvóta, þó lítill sé. Þá eru niðurstöðurnar varðandi ungloðnuna það jákvæðasta sem hefur komið út úr loðnurannsóknum mjög lengi og er það vissulega fagnaðarefni,“ segir Vilhjálmur.

Á síðustu vertíð var kvóti skipa HB Granda hf. 20.505 tonn. Hlutur félagsins af 200.000 þúsund tonna tillögunni nú verður væntanlega um 27.000 tonn, að því gefnu að sjávarútvegsráðherra fari að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Hafa ber í huga að Íslendingar deila loðnukvótanum með Norðmönnum, Færeyingum og Grænlendingum en hluti þessara þjóða í heildarkvótanum er um 28%.

En hvernig hyggst HB Grandi nýta loðnukvótann á vertíðinni?

,,Við reiknum með að veiða eitthvað af loðnu í desember og vonum að mæling Hafrannsóknarstofnunar í janúar muni gefa tilefni til viðbótarkvóta,“ segir Vilhjálmur en hann bendir á að þótt niðurstöður umræddra mælinga séu vissulega uppörvandi þá sé aflamagnið, sem Hafrannsóknastofnun leggur til nú, aðeins brot af því sem veitt var á sínum tíma.

,,Þess má geta að fyrstu vertíðina eftir að HB Grandi hf. varð til í sinni núverandi mynd eftir kaup á HB og samruna við Tanga og Svan RE ehf. fyrir rúmlega fimm árum var loðnukvóti félagsins 144 þúsund tonn,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir