FréttirSkrá á póstlista

17.11.2010

Allt klárt á Akranesi

Þess er nú beðið að gulldepluveiðar glæðist en tvö skip HB Granda hafa undanfarna daga leitað að þessum smáa fiski frá Skerjadjúpi í vestri og austur fyrir Vestmannaeyjar. Á Akranesi eru starfsmenn fiskmjölsverksmiðju félagsins tilbúnir til þess að taka á móti afla og vinna hann en ekkert hefur verið unnið í verksmiðjunni frá því í júlí í sumar.

,,Hér er allt orðið skotklárt og nú bíðum við bara eftir því að skipin skili sér til hafnar,“ sagði Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri á Akranesi, er rætt var við hann í morgun. Að sögn Guðmundar eru Faxi RE og Lundey NS nú við leit austan við Vestmannaeyjar en lítill afli hefur fengist á hafsvæðinu vestan við Eyjar. Þó mun Faxi vera kominn með um 80 tonna afla en sá afli fékkst í tveimur holum í Grindavíkurdjúpi.

,,Við höfum alls unnið úr rúmlega 30 þúsund tonnum af fiski á þessu ári. Fyrst var það gulldepla, þá loðna og kolmunni og í sumar tókum við á móti makríl sem ísfisktogararnir veiddu. Nú vonum við að gulldeplan gefi sig til og að loðnukvótinn verði aukinn verulega á komandi vertíð,“ sagði Guðmundur Hannesson en að hans sögn hefur tíminn verið notaður frá í sumar til þess að fara yfir búnað verksmiðjunnar.

Alls munu 12 manns starfa á tveimur vöktum í verksmiðjunni á Akranesi þegar vinnsla hefst að nýju.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir