FréttirSkrá á póstlista

16.11.2010

Leitað að gulldeplu við suðurströndina

Veiðar á gulldeplu eru hafnar en tvö skipa HB Granda, Faxi RE og Lundey NS, fóru til veiða sl. laugardagskvöld. Lítill afli hefur fengist þessa fyrstu daga vertíðarinnar en bræla hamlaði veiðum í gær og í nótt að sögn Arnþórs Hjörleifssonar, skipstjóra á Lundey NS.

,,Það má í raun segja að allur tíminn hafi farið í leit að gulldeplu í veiðanlegu magni. Faxi fékk reyndar 30 tonn í einu kasti á sunnudag og þeir voru að kasta áðan en mér skilst að lóðningar hafi ekki verið merkilegar. Það kom eitthvað smávegis ,,ryk“ fram á mælum og það verður að koma í ljós hvort einhver afli fæst,“ segir Arnþór en er rætt var við hann nú laust eftir hádegið voru skipin stödd í Grindavíkurdjúpi um 30 mílur suður af Grindavík.

Það sem af er veiðiferðinni hefur verið leitað að gulldeplu í Grindavíkurdjúpi og vestur í Skerjadjúp. Þaðan var haldið til baka og að sögn Arnþórs er líklegt að leitað verði áfram austur með suðurströndinni ef gulldepla finnst ekki í veiðanlegu magni í Grindavíkurdjúpinu.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir