FréttirSkrá á póstlista

21.10.2010

Hálf öld liðin frá komu Víkings AK til landsins

Í dag eru liðin 50 ár frá því að tog- og nótaskipið Víkingur AK 100 kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Akranesi. Að sögn Karls Sigurjónssonar, sem hefur með höndum skipaeftirlit fyrir HB Granda á Akranesi, var skipið smíðað í AG WEBER WERK í Bremerhaven í Þýskalandi og var það á þeim tíma meðal stærstu og fullkomnustu fiskiskipa landsins, ásamt með systurskipum sínum, Maí GK 346, Frey RE 1 og Sigurði ÍS 33 sem seinna fékk einkennisstafina RE 4 og VE 15.

Samkvæmt upplýsingum Karls er það ekki eingöngu Víkingur AK af þessum fjórum skipum sem komið hefur við sögu hjá HB Granda og forverum félagsins því Ísbjörninn hf., sem síðar sameinaðist Bæjarútgerð Reykjavíkur við stofnun Granda hf., lét smíða Frey RE. Það skip var selt úr landi árið 1963 og fékk þá nafnið Ross Revenge og einkennisstafina GY 718. Síðar var skipið notað undir starfsemi útvarpsstöðvarinnar Radio Caroline á árunum frá 1983 til 1991 en núna er það í eigu manna sem hyggjast koma skipinu í upphaflegt horf. Nánari upplýsingar um það framtak er að finna á heimasíðu skipsins.

Víkingur var upphaflega útbúinn með 2400 hestafla Werkspoor aðalvél og ganghraði skipsins var 16 til 17 sjómílur á klukkustund sem þykir enn í dag býsna gott fyrir skip með þetta vélarafl og af þessari stærð. Skipið hefur alla tíð verið gert út frá Akranesi. Upphaflega var skipið smíðað sem síðutogari til karfaveiða við Nýfundnaland. Því var fyrst breytt í nótaskip um 1967 og fór í framhaldi af því til síldveiða. Eftir að síldin hvarf var skipið notað sem síðutogari fram til ársins 1976 en þá var því aftur breytt til nótaveiða. Nýrri aðalvél var komið fyrir árið 1981 og rafmagnskerfið var þá endurnýjað með breytingu úr jafnstraumi í 380/220V riðstraum. Ný brú var sett á skipið árið 1989 og um leið var efsta íbúðarhæðin endurnýjuð.

Víkingur hefur frá upphafi verið mikið happafley og ýmist verið aflahæsta skipið eða með þeim aflahæstu í sínum flokki. Heildarafli skipsins á þessari hálfu öld síðan það bættist í flota landsmanna er rúmlega 930.000 tonn og þar af er bolfiskaflinn frá togaraárunum um 46.000 tonn. Víkingur hefur undanfarin ár lengst af legið í höfn á Akranesi en það hefur þó verið notað til loðnuveiða frá árinu 2005 með þeirri undantekningu að sumarið 2009 var það notað til flutninga á makrílafla. Skipstjóri á Víkingi er Magnús Þorvaldsson.
Móttaka í tilefni dagsins

Þessara merku tímamóta verður annars minnst á Akranesi í dag. Í tilefni af hálfrar aldar afmæli Víkings AK er öllum fyrrverandi skipverjum og öðrum velunnurum skipsins boðið til kaffisamsætis í dag í matsal HB Granda að Bárugötu 8-10 á Akranesi. Hátíðin hefst með því að heilsa skipinu með fallbyssuskothríð að hætti Landhelgisgæslunnar kl. 14:30 eða á sama tíma og skipið sigldi fánum prýtt til hafnar á Akranesi í fyrsta sinn 21. október 1960.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir