FréttirSkrá á póstlista

20.10.2010

900 tonn af síld í tveimur köstum

Ingunn AK er nú á leið til Vopnafjarðar með um 900 tonn af íslenskri síld en sá afli fékkst á Breiðafirði skammt frá Stykkishólmi. Þetta er fyrsti aflinn úr þessum stofni á vertíðinni en skammt er síðan að sjávarútvegsráðherra heimilaði 15.000 tonna byrjunarkvóta.

,,Við vorum einir að veiðum og tókum tvö köst. Hið fyrra var rétt utan við Stykkishólm og það síðara inni á Breiðasundi sem er skammt þar fyrir innan,“ sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Ingunni, er við náðum tali af honum nú í morgun. Að sögn Guðlaugs voru aðstæður góðar á veiðisvæðinu, lítill straumur og fékkst aflinn á um 20 faðma dýpi. Góðar lóðningar voru á svæðinu og vonandi gefur það fyrirheit um að nóg sé af síld í Breiðafirði þannig að hægt verði að auka við kvótann.

Mikið hefur verið rætt og ritað um sýkingu í íslenska sumargotssíldarstofninum en að sögn Guðlaugs var ekki að sjá á síldinni að hún væri sýkt.

,,Það sást ekkert á utan á síldinni og við sprettum upp 30 síldum af handahófi og þær voru allar í góðu lagi,“ segir Guðlaugur Jónsson.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir