FréttirSkrá á póstlista

19.10.2010

Vinnslumet á Vopnafirði

Á þessu ári hafa alls verið fryst tæplega 17.000 tonn af uppsjávarafurðum í fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði. Þetta er nýtt og glæsilegt vinnslumet en fyrra met er frá árinu 2004 en þá voru fryst 12.700 tonn af afurðum á Vopnafirði. Þá var tæpur helmingur afurðanna heilfryst loðna en nú eru það síldar- og makrílafurðir sem verið hafa uppistaðan í framleiðslunni.

Magnús Róbertsson, vinnslustjóri hjá HB Granda á Vopnafirði, segir að á loðnuvertíðinni hafi tekist að frysta um 1.000 tonn af loðnuafurðum en uppistaðan í þeirri vinnslu eru fryst loðnuhrogn. Veiðar á norsk-íslensku síldinni hófust síðan í byrjun júní og síðan þá hafa verið fryst tæplega 11.000 tonn af síld á Vopnafirði. Vinnsla á makríl til manneldis hefur einnig verið umtalsverð því búið er að frysta rúmlega 4.800 tonn af makríl á vertíðinni. Til samanburðar má nefna að í fyrra nam frysting á norsk-íslenskri síld á Vopnafirði aðeins tæplega 6.000 tonnum og nánast ekkert af makrílaflanum fór þá til frystingar.

Nú er verið að ljúka við að vinna úr síldarafla Lundeyjar NS á Vopnafirði og býst Magnús við að því verki verði lokið um kl. 16. Faxi RE var síðan væntanlegur til hafnar um kl. 14 með um 750 tonn af norsk-íslenskri síld. Ingunn AK hefur verið við veiðar á íslenskri sumargotssíld í Breiðafirði og er skipið nú á leið til Vopnafjarðar með um 750 tonna afla. Hlutdeild HB Granda í byrjunarkvótanum á vertíðinni er um 1.800 tonn og því er ljóst að vinnslutölur á Vopnafirði eiga enn eftir að hækka, ekki síst ef aukið verður við síldarkvótann en nú standa yfir rannsóknir á stærð og útbreiðslu stofnsins.

Nýjustu fréttir

Allar fréttir