FréttirSkrá á póstlista

14.10.2010

Síldveiðum skipa HB Granda að ljúka

Mjög góð síldveiði hefur verið nú í vikunni og hratt hefur gengið á síldarkvóta skipa HB Granda. Lundey NS er nú í sinni síðustu veiðiferð en Ingunn AK og Faxi RE eru á Vopnafirði. Eftirstöðvar kvótans voru um 2.400 tonn áður en Lundey fór til veiða og því koma um 800 tonn í hlut hvers skips. Þá eru óveidd um 1.350 tonn af makrílkvótanum en að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er mjög ólíklegt að sá kvóti náist áður en síldveiðunum verður hætt.

Lundey kom til hafnar á Vopnafirði í byrjun vikunnar með um 950 tonna afla. Nú upp úr hádeginu var lokið við að landa um 800 tonna afla Faxa og er röðin þá komin að Ingunni sem kom til hafnar með rúmlega 1.000 tonna afla sl. þriðjudag. Að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Ingunni, var mikið af síld á veiðisvæðinu.

,,Það er mikil ferð á síldinni og hún gengur hratt austur og inn í færeysku lögsöguna. Við vorum að veiðum með Faxa framan af veiðiferðinni en síðan vorum við einir að veiðum og fengum góðan afla. Við eltum síldina frá Reyðarfjarðardjúpinu og út yfir miðlínuna á milli Íslands og Færeyja,“ segir Guðlaugur en þess má geta að síðustu vikurnar hafa skipin verið að veiðum saman með eitt troll og það er ekki fyrr en nú að skilyrði hafa skapast til þess að skipin séu ein að veiðum. Síldin hagar sér þó með svipuðum hætti og hún hefur gert síðustu vikur. Hún hefur staðið djúpt að deginum en síðan komið upp undir yfirborðið þegar skyggja tekur. Að sögn Guðlaugs fékkst hluti aflans á allt að 200 faðma dýpi. Það kemur mönnum nokkuð á óvart hve síldin gengur seint að þessu sinni út úr íslensku lögsögunni en í fyrra lauk síldveiðum skipa HB Granda í lögsögunni í lok septembermánaðar.

Sem fyrr segir eiga skipin óveidd um 1.350 tonn af makrílkvóta ársins en tvívegis hefur verið bætt við kvótann eftir að makrílveiðin datt niður í byrjun september. Um 900 tonna viðbótarkvóti kom í hlut skipa HB Granda þannig að aðeins eru því óveidd um 450 tonn af upphafskvótanum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir