FréttirSkrá á póstlista

08.10.2010

Íslendingar staldra stutt við og endast illa í starfi

Það er gömul saga og ný að oft á tíðum hefur gengið erfiðlega að manna fiskvinnslufyrirtæki landsins. Skiptir þá litlu hvernig atvinnuástandið í landinu hefur verið á hverjum tíma. Við þessu hafa velflest fiskvinnslufyrirtæki brugðist með því að ráða fólk af erlendu bergi brotnu til starfa. Íslendingar, sem sótt hafa um vinnu, hafa í flestum tilvikum staldrað stutt við og aðrir hafa hreinlega ekki mætt til vinnu. Nú þegar atvinnuleysi í landinu er í hæstu hæðum hefði mátt halda að viðhorfið væri annað en það er fjarri lagi. Enn sem fyrr eru það aðallega útlendingar eða íslenskir ríkisborgarar af erlendu bergi brotnir sem sækja um störf hjá fiskvinnslufyrirtækjunum. HB Grandi er þar engin undantekning. Í fiskiðjuveri félagsins í Norðurgarði í Reykjavík starfar nú fólk frá alls 17 þjóðlöndum, ef Íslendingar eru meðtaldir, og um 75% starfsmannanna í landvinnslunni eru af erlendum uppruna.

Edda Waage er íslensk í húð og hár og hún hefur starfað hjá HB Granda og forverum þess félags frá árinu 1984 er hún hóf störf í Ísbirninum en það var skömmu eftir að frystihúsið að Norðurgarði var tekið í notkun. Hún var þá nýflutt til landsins frá Svíþjóð og þar sem að hún átti þá sex ára gamalt barn þá byrjaði hún á því að vinna hálfan daginn. Fljótlega fór hún þó í fulla vinnu og nú vinnur hún við gæðaeftirlit í Norðurgarði. Í því felst að hún skoðar afurðirnar sem verið er að vinna hverju sinni og gengur úr skugga um að þær standist þær miklu gæðakröfur sem gerðar eru til framleiðslunnar.

Nelia Baldelovar er frá Filipseyjum. Hún fluttist til Íslands með íslenskum eiginmanni sínum árið 1996 og starfaði fyrst um sinn við fiskvinnslu í heimabæ eiginmannsins, Ólafsvík. Þaðan lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hún fór til starfa í saltfiskvinnslu Hólmarastar og loks lá leiðin til Granda sem síðar varð HB Grandi. Líkt og Edda vinnur Nelia við gæðaeftirlit en hún fékk þjálfun í því eftir að hafa unnið hjá fyrirtækinu um tveggja ára skeið.
Edda og Nelia eru ánægðar í starfi og þær segja að starfsandinn í Norðurgarði sé einstaklega góður.

,,Aðbúnaður hér er skínandi góður. Vinnutíminn er fínn og það er svigrúm til þess að taka aukavaktir ef því er að skipta. Launin mættu auðvitað alltaf vera betri. Þau hafa þó alls ekki versnað,“ segir Edda og bætir því við að hún skilji alls ekki hvers vegna margir Íslendingar kjósi að vera frekar á atvinnuleysisbótum en að starfa við fiskvinnslu.

,,Það er mjög erfitt að fá Íslendinga í þessi störf og þeir sem ráða sig í vinnu stoppa yfirleitt mjög stutt við. Sumir endast aðeins í tvo til þrjá daga. Það virðist vera ríkjandi skoðun að fiskvinnsla sé óþrifalegt starf en það er ekki hægt að segja það um vinnuna hér í Norðurgarði. Miðað við fyrri tíma þá má eiginlega segja að þetta sé orðin hálfgerð pjattvinna. Hún getur reyndar verið erfið en ég get a.m.k. ímyndað mér að til séu mörg önnur og miklu óþrifalegri störf,“ segir Edda.

Undir þetta tekur Nelia. Hún segir að þar sem að hún vinni m.a. við gæðaeftirlit sem tengist frystingu á afurðunum þá þurfi hún stundum að vinna á næturnar.

,,Það er ekkert að því. Vinnan er skemmtileg og hér eru góðir vinnufélagar og frábær starfsandi,“ segir Nelia.
Mikil breyting varð á vinnslunni í Norðurgarði í byrjun ársins þegar ný og afar fullkomin flæðilína frá Marel var tekin þar í notkun. Á flæðilínunni eru unnar ufsaafurðir. Þá hefur vinnsla á afurðum sem fluttar eru utan með flugi farið ört vaxandi.

,,Þetta er orðið eins og hver önnur verksmiðja. Hér er stöðug vinna og það er aðeins veðrið og gæftir sem setja strik í reikninginn. Það kemur fyrir að það verði hlé á vinnslunni í slæmum vetrarveðrum og síðan er gert hlé á vinnslunni í þrjár vikur fyrir jólin og fram yfir áramót,“ segir Edda og Nelia bætir því við að þá fái starfsmennirnir greidd dagvinnulaun en hópbónusinn er aðeins virkur á meðan vinnsla er í húsinu. Bónusgreiðslurnar eru mál fyrirtækisins og starfsmannanna og tengjast ekki kjarasamningum.

,,Það eru mjög mörg ár síðan að einstaklingsbónuskerfið var lagt niður og ég verð ekki vör við annað en að fólk sé ánægt með núverandi fyrirkomulag,“ segir Edda.
Í vikunni áður en rætt var við þær Eddu og Neliu var gerð gæðaúttekt á starfseminni í Norðurgarði en hvort tveggja Norðurgarður sem og fiskiðjuver HB Granda á Akranesi hafa komið mjög vel út úr úttektum sem þessum. Nelia segir að stjórendur og starfsfólk séu vakin og sofin í því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til framleiðslunnar.

,,Hér snýst allt um að hreinlæti sé haft í öndvegi. Hreinlætisaðstaðan er mjög góð og kröfurnar sem gerðar eru til gæða afurðanna aukast stöðugt. Við vitum af þeim kröfum, sem til okkar eru gerðar, og starfsmennirnir leggja metnað sinn í að standa sig vel í starfi,“ segir Nelia.
Sem fyrr segir þá á Edda að baki rúmlega aldarfjórðung í starfi í Norðurgarði og hún segist ekkert vera farin að hugsa um að setjast í helgan stein.

,,Ég er bara 64 ára gömul og það kemur ekkert til greina annað en að vinna hér á meðan heilsan leyfir. Mér skilst að fólk geti unnið þar til að það verður sjötugt og vonandi tekst mér það,“ segir Edda Waage.

(Viðtalið við þær Eddu og Neliu birtist í blaðinu Sóknarfæri sem er sjávarútvegsblað Athygli og var því dreift með Morgunblaðinu í liðinni viku. Viðtalið er birt hér með góðfúslegu leyfi útgefanda).

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir