FréttirSkrá á póstlista

07.10.2010

Leiðinda tíð og frekar dræm veiði

Faxi RE er væntanlegur til Vopnafjarðar síðdegis í dag með um 280 tonn af síld sem fengust í nótt austur af Glettinganesi. Faxi var að veiðum með Ingunni AK og að sögn Hjalta Einarssonar, sem var skipstjóri í veiðiferðinni, hefur leiðinlegt veður sett svip sinn á veiðarnar undanfarna daga og hafa aflabrögðin verið frekar dræm.

,,Það hefur verið erfitt að eiga við síldina vegna veðurs og þá hjálpar það ekki til að síldin liggur við botninn á meðan birtu nýtur en síðan kemur hún upp og dreifir sér þegar það tekur að rökkva. Það er mjög erfitt að lesa í stöðuna. Maður sér ekki mikið en það er samt hægt að hitta á þokkaleg hol. Þennan afla fengum við t.d. á sex tímum í nótt. Við köstuðum á miðnætti og kláruðum holið snemma í morgun,“ segir Hjalti en þrátt fyrir að tíðarfarið hafi verið erfitt síðustu daga þá hjálpar það mikið að stutt er á miðin eða aðeins um 80 sjómílna sigling frá Vopnafirði.

Síldin, sem veiðst hefur síðustu dagana út af Austfjörðunum, er af blandaðri stærð. Lítið er um makríl í aflanum og ekki verður vart við kolmunna á þessum slóðum. Mörg íslensk skip hafa verið að veiðum á svæðinu en ekkert hefur sést til norskra eða færeyskra skipa um skeið.

Í gær var lokið við að vinna úr um 950 tonna afla Ingunnar á Vopnafirði og í morgun lauk síðan vinnslu úr um 220 tonna afla sem Lundey kom með í gær. Lundey er nú á leið á miðin þar sem hún og Ingunn veiða saman með einu stóru trolli og mun Ingunn síðan sigla til hafnar með aflann þegar ásættanlegu aflamagni fyrir vinnsluna er náð.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir