FréttirSkrá á póstlista

28.09.2010

Stefnt að veiðum á síld og makríl næstu 3 til 4 vikur

Það dregur að lokum veiða á norsk-íslenskri síld og makríl á þessu ári. Um svipað leyti í fyrra var síldveiðin að fjara út innan íslenskrar lögsögu en veiðar voru þá stundaðar áfram um skeið í Síldarsmugunni og síðan innan norskrar lögsögu. Hratt hefur gengið á síldar- og makrílkvóta skipa HB Granda en Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs félagsins, vonast til þess að hægt verði að stunda veiðarnar í þrjár til fjórar vikur til viðbótar að því gefnu að veiðin haldist þokkaleg og að tíðarfar setji ekki strik í reikninginn.

Góð síldveiði var í lok síðustu viku og Lundey NS kom með 870 tonna afla til Vopnafjarðar sl. fimmtudag en sá afli fékkst í eitt troll sem dregið var á móti Faxa RE. Faxi og Ingunn AK komu síðan inn á laugardag með afla sem þau fengu saman. Lokið var við að vinna úr 720 tonna afla Faxa í gærmorgun og nú er verið að vinna úr rúmlega 1.100 tonna afla Ingunnar á Vopnafirði.

,,Síldin er stór og góð til vinnslu og það voru fryst um 1.500 tonn af afurðum í síðustu viku. Í gærmorgun var alls búið að frysta rúmlega 12.000 tonn af afurðum á Vopnafirði í sumar, þar af um 7.500 tonn af síldarafurðum og 4.800 tonn af markrílafurðum,“ segir Vilhjálmur en að hans sögn eru eftirstöðvar kvótans nú um 7.500 tonn af síld og rúmlega 1.000 tonn af makríl.

Samkvæmt upplýsingum Vilhjálms datt veiðin niður um helgina eftir að veður versnaði á miðunum og hafa Faxi og Lundey verið við leit frá því í gær.

,,Á þessum tíma í fyrra var veiðin að fjara út í íslensku lögsögunni og skipin voru farin til leitar og veiða í Síldarsmugunni. Það er útilokað að spá fyrir um framhaldið núna en við vonumst auðvitað til að veiðin haldist sem lengst innan íslensku lögsögunnar. Fari saman góð veiði og gott tíðarfar ættum við að geta veitt það sem eftir er á næstu þremur til fjórum vikum,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Þess má geta að nokkur norsk skip komu til veiða á norsk-íslenskri síld í íslenskri lögsögu í síðustu viku. Nokkur færeysk skip eru þar einnig að veiðum. Tvö norsk skip eru nú á leið til Noregs með afla. Haugagut er með um 260 tonn og Vendla með um 600 tonn.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir