FréttirSkrá á póstlista

16.09.2010

Velheppnuð Vestmannaeyjaferð

Starfsmannafélag HB Granda gekkst um síðustu helgi fyrir ferð fyrir starfsmenn félagsins til Vestmannaeyja. Alls tóku tæplega 90 manns þátt í ferðinni og að sögn Finnboga Einarssonar, formanns starfsmannafélagsins, var almenn ánægja með það hvernig til tókst.

,,Upphaflega voru 137 manns skráðir í ferðina og það hefði verið stærsti hópur sem Hótel Þórshamar hefði hýst. Vegna vandræðanna með siglingar Herjólfs til Landeyjahafnar, urðum við að sigla frá Þorlákshöfn og það varð til þess að þó nokkuð margir hættu við ferðina. Þegar upp var staðið voru það 87 manns frá HB Granda sem fóru til Eyja,“ segir Finnbogi en að hans sögn var hópurinn einstaklega heppinn með veðrið. Farið var frá Norðurgarði til Þorlákshafnar kl. 10 á laugardagsmorgninum og siglingin til Eyja tók þrjá tíma.

,,Það var frábært veður í Eyjum, um 14 stiga hiti, logn og sól. Við komuna til Eyja var hópnum skipt upp í tvo hópa. Annar hópurinn fór í skoðunarferð um Heimaey en hinn hópurinn fór í siglingu og skoðaði nærliggjandi eyjar. Meðal þess, sem við skoðuðum á Heimaey, var uppgröfturinn á gamla eldgosasvæðinu, gengið var á Eldfell, farið var í Herjólfsdal og síðast en ekki síst var farið að Stórhöfða. Okkur var tjáð að þetta væri þriðji vindasamasti staður í heimi en að þessu sinni var nánast blankalogn á staðnum og það segir e.t.v. meira en margt annað um það hve við vorum heppin með veðrið. Þeir, sem fóru í siglinguna, gátu m.a. fylgst með smölun heimamanna á kindum í Bjarnarey og svo var boðið upp á ljúfan saxófónleik í fallegum sjávarhelli.“

Á laugardagskvöldinu var svo slegið upp veislu í golfskálanum og þar var boðið uppá ljúffengt hlaðborð en um matreiðsluna sá enginn annar en Einsi kaldi. Formlegri dagskrá lauk síðan upp úr kl. 22:00 var svo formlegri dagskrá lokið.

,,Við vorum reyndar óheppin að því leyti að það var rigning á sunnudeginum en að öðru leyti hið besta veður. Það var svo haldið með Herjólfi áleiðis til Þorlákshafnar kl. 15:15 og þaðan með rútum til Reykjavíkur,“ segir Finnbogi en hann vildi sérstaklega þakka Eyjamönnum fyrir frábærar móttökur og góða þjónustu.


Nýjustu fréttir

Allar fréttir