FréttirSkrá á póstlista

10.09.2010

Ljónstygg síld á mikilli ferð

Von er á Faxa RE til hafnar á Vopnafirði um eða upp úr kl. 14 í dag með um 640 tonna afla sem fékkst um 150 mílur norðaustur af Vopnafirði. Faxi togaði með einu trolli á móti Lundey NS og síðan Ingunni AK í þessari veiðiferð og að sögn Alberts Sveinssonar skipstjóra heftur þessi samvinna skilað mun betri árangri en ef skipin toguðu hvert um sig með einu trolli.

,,Það er fínn gangur í veiðunum og það er nauðsynlegt, eins og staðan er á síldinni, að skipin séu saman á veiðum með stærra troll. Þetta er stór og mjög stygg síld, sem við erum að eltast við, og það er rosaleg ferð á henni. Það er ekki nóg að það lóði á góða torfu, heldur verður maður síðan að hitta á hana og fara í rétta átt á eftir henni,“ segir Albert en til marks um hraðann á síldargöngunum nefnir hann að á dögunum hafi skipverjar á Faxa orðið varir við síldartorfu sem síðan var fylgt eftir og hún færðist um 60 mílur í norðausturátt á aðeins einum sólarhring.

Að sögn Alberts eru Ingunn og Lundey með mun stærri troll en Faxi en þar um borð er notast við kolmunnatroll sem þó er mun stærra en hin hefðbundnu síldartroll. Sá háttur er hafður á að togað er með trolli þess skips sem fara á í land með aflann. Þannig byrjaði Faxi að toga á móti Lundey með trolli Lundeyjar og síðan var kolmunnatroll Faxa notað þegar togað var á móti Ingunni.

Albert segir að hlutfall kolmunna í aflanum hafi heldur minnkað upp á síðkastið og er það af hinu góða. Alltaf er eitthvað um að makríll sé með síldinni en magnið nú er ekki meira en svo að nóg er eftir af makrílkvóta ársins.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir