FréttirSkrá á póstlista

09.09.2010

10 þúsund tonnum af frystum afurðum fagnað með tertuveislu

Tímamót voru í vinnnslunni hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði aðfararnótt sl. miðvikudags. Þá náðist sá áfangi að búið var að frysta meira en 10.000 tonn af síldar- og makrílafurðum í frystihúsinu á yfirstandandi sumarvertíð. Haldið var upp á þessi tímamót með því að bjóða starfsmönnunum upp á brauðtertur með kaffinu.

Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra hefur vinnslan gengið ágætlega upp á síðkastið og þá ekki síst eftir að brugðið var á það ráð að senda tvö skip til veiða í einu með eitt stórt flottroll. Veiðin tregaðist í síðustu viku en hún hefur verið ágæt frá því í byrjun vikunnar eða eftir að hinar svokölluðu tvíbura- eða tvílembingsveiðar hófust.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, segir að aflinn hafi verið töluvert blandaður að undanförnu. Hlutfall makríls með síldinni er samt ekki til vandræða en verra er að kolmunni hefur blandast síldinni og það hefur valdið nokkrum vandræðum í vinnslunni. Undir það tekur Magnús vinnslustjóri.

,, Kolmunninn truflar okkur að því leyti að hann fer með síldinni inn á flokkarana og það er erfitt að flokka hann frá minni síldinni. Fyrir vikið hefur smærri síld, sem hentað hefði í frystingu, flokkast frá með kolmunnanum og farið til bræðslu,“ segir Magnús en hann upplýsir að ekki sé gott að fá kolmunnann inn á síldarflökunarvélarnar.

Þess má geta að Lundey NS er nú í höfn á Vopnafirði með um 620 tonna afla og hefur gengið vel að vinna aflann. Faxi RE var inni með um 280 tonna afla sl. sunnudag og á þriðjudag kom Ingunn AK til Vopnafjarðar með um 420 tonna afla. Skipin hafa verið að veiðum um 50 til 60 sjómílur austur af Vopnafirði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir