FréttirSkrá á póstlista

01.09.2010

Rúmlega þreföldun á afla til frystingar þrátt fyrir verulegan aflasamdrátt

Það sem af er árinu hafa skip HB Granda landað rúmlega 27 þúsund tonnum af norsk-íslenskri síld og makríl á Vopnafirði. Þetta er verulegur aflasamdráttur ef miðað er við sama tíma í fyrra en þá hafði tæplega 41 þúsund tonnum af síld og makríl verið landað á Vopnafirði. Góðu fréttirnar eru þær að vinnsla á síld og makríl til manneldis hefur stóraukist á milli ára og er aukningin rúmlega þreföld ef miðað er við afurðamagn.

Þetta kemur fram í samtali við Vilhjálm Vilhjálmsson, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda. Hann segir að þann 1. september í fyrra hafi verið búið að frysta 2.800 tonn af afurðum eða úr um 7% heildaraflans á þeim tíma en megninu var landað beint í fiskmjölsverksmiðjuna. Í ár er hins vegar búið að frysta um 9.000 tonn af afurðum eða um 33% heildaraaflans og frystar afurðir hafa verið unnar úr öllum lönduðum afla. Það þýðir að enginn heill farmur hefur farið til vinnslu á mjöli og lýsi hjá fiskmjölsverksmiðjunni á þessu ári.

,,Nýja fiskmjölsverksmiðjan á Vopnafirði hefur fyrir vikið fengið mun minna til að vinna úr en sú eldri fékk fyrra og í ár hefur verksmiðjan eingöngu fengið afskurð og síld og makríl sem flokkast hefur frá við flokkun í uppsjávarfrystihúsinu. Í fiskmjölsverksmiðjunni er nú búið að vinna úr um 18 þúsund tonnum af síldar- og makrílafskurði sem og fiski sem flokkast hefur frá vegna þess að hann hentaði ekki til frystingar. Í fyrra var magnið um 38 þúsund tonn og það var að langmestu leyti heill og óflokkaður fiskur,“ segir Vilhjálmur.

Rekstur nýju fiskmjölsverksmiðjunnar hefur gengið vel og byrjunarörðugleikar hafa verið óverulegir. Að sögn Vilhjálms á Héðinn hf., sem tók að sér að reisa nýju verksmiðjuna með aðstoð undirverktaka, þó eftir að ljúka við nokkra verkþætti og í því sambandi ber helst að nefna rafvæðingu loftþurrkara og er vonast til að því verki ljúki nú í septembermánuði.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir