FréttirSkrá á póstlista

30.08.2010

Hlutfall makríls í aflanum frá 10-70%

Ágætur gangur hefur verið í síld- og makrílveiðum skipa HB Granda upp á síðkastið. Veiðisvæðið er stórt og hafa skipin m.a. verið að veiðum í Síldarsmugunni og færeysku lögsögunni. Þá hefur afli fengist um 40 sjómílur frá Vopnafirði.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, hefur það valdið nokkrum vandkvæðum að erfitt hefur reynst að sneiða hjá makríl á síldveiðunum. Hlutfall makríls í aflanum í einstökum holum hefur verið frá 10% og upp í 70%. Þá er farið að bera á kolmunna í aflanum.

Skip HB Granda eiga nú óveidd um 15.000 tonn af síldarkvótanum en ekki eru eftir nema um 2.500 tonn af makrílkvótanum. Því má segja að makrílinn verði að veiða sem meðafla á síldveiðunum og nauðsynlegt er að haga veiðunum þannig að hlutfall makríls í aflanum verði ekki of hátt.

Í gærkvöldi lauk vinnslu á Vopnafirði á afla úr Lundey NS og nú er verið að vinna afla úr Faxa RE og Ingunn AK bíður löndunar. Lundey er nú á veiðum. Í nótt var trollinu kastað aðeins um 40 sjómílur frá höfninni í Vopnafirði en á þeim slóðum fékk skipið afla í veiðiferðinni á undan. Aflinn í fyrsta holinu var 150 tonn og reyndust um 80% aflans vera síld og um 20% makríll.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir