FréttirSkrá á póstlista

19.08.2010

Blettótt síldveiði

Ingunn AK kom til Vopnafjarðar í nótt sem leið með tæplega 600 tonna afla sem fékkst djúpt austur af landinu. Uppistaða aflans er síld en dálítið er um makríl í aflanum. Að sögn Guðlaugs Jónssonar, skipstjóra á Ingunni, hefur veiðin verið mjög kaflaskipt eftir að skip HB Granda fóru til veiða eftir verslunarmannahelgina.

,,Lundey NS fór fyrst til veiða eftir hléið sem gert var á veiðum og vinnslu vikuna fyrir verslunarmannahelgina. Það var lítil veiði fyrsta sólarhringinn en síðan fannst ágætur blettur og veiðin var mjög góð dagana á eftir. Síðan dró úr veiðinni og hún hefur einkennst af því að leitað er að torfum í veiðanlegu magni og þegar þær finnast þá getur veiðin verið góð. Þetta er sem sagt sannkallað blettafiskirí,“ segir Guðlaugur en að hans sögn var Ingunn komin hátt í 200 mílur austur af Vopnafirði þegar veiði var hætt í fyrrakvöld.

,,Við vorum í þokkalegustu veiði en síðan gerði kaldafýlu og eftir það datt botninn úr veiðinni,“ segir Guðlaugur.

Síldin sem veiðst hefur að undanförnu er af ágætri millistærð eða um 230-240 grömm að þyngd. Nú er verið að landa úr Faxa RE á Vopnafirði en Lundey er á veiðum.

 

Nýjustu fréttir

Allar fréttir